Skoðanakannanir
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka svör þeirra tveggja hæstv. ráðherra sem hér hafa tekið til máls en svar hæstv. forsrh. bar með sér að það er ekki ofsögum sagt af völundarhúsi skriffinnskunnar, úr einu ráðuneyti í annað. Það tekur tæp tvö ár þar til þál. er komin á leiðarenda sem síðar reynist vera byrjunarpunktur. Það er í rauninni óheppilegt ef tímasetningu þessara reglna ber upp rétt fyrir kosningar því það getur fengið á sig þann blæ eða getur vakið þær grunsemdir að stjórnmálamenn séu fyrst og fremst að vernda eigið skinn.
    Hvað varðar orð hæstv. menntmrh. um það hvað verði gert við upplýsingar að lokinni birtingu niðurstöðu skoðanakannana er ég ekki sammála honum í því að það sé mikilvægasti þátturinn. Hér voru samþykkt á Alþingi rétt fyrir áramót lög um meðferð og skráningu persónuupplýsinga og vonandi þannig frá gengið að vandlega verði farið með slíkar upplýsingar, að svo miklu leyti sem það er hægt í þessu þjóðfélagi þar sem upplýsingar um persónulega hagi fólks er mjög víða að finna í kerfinu. Hitt þykir mér mikilvægara í okkar þjóðfélagi, þar sem mál-, rit- og skoðanafrelsi eru burðarþættir lýðræðis, að svo verði áfram og aðrir þættir verði ekki styrktir um of sem kannski hefta þetta frelsi í raun. Því finnst mér það sem vegur þyngst í þessu máli vera að vel sé að málum staðið vegna þess hve skoðanakannanir geta haft gífurleg áhrif á skoðanir fólks.