Úrskurðir Jafnréttisráðs
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að festa þurfi í lög að fólki sé ekki mismunað vegna kynferðis síns. Engu að síður er það staðreynd og ekki að ástæðulausu. Það skiptir því máli að slík lög nái tilgangi sínum.
    Eins og fram kom í svari hæstv. félmrh. er eini möguleiki Jafnréttisráðs til að fá úrskurðum sínum framfylgt að leita til dómstóla og þá með samþykki þess sem brotið er á. En eins og hún upplýsti enn fremur eru skýrari og vonandi markvissari lög í uppsiglingu.
    Margir hafa talið að Jafnréttisráð og úrskurðir þess nái ekki tilgangi sínum eins og sakir standa. Skal ég ekki leggja dóm á það. En ég skal ekki efa að Jafnréttisráði er ætlað gilt hlutverk, m.a. að benda á og bæta úr misrétti á vinnumarkaðinum og víðar. En er mögulegt að fá bætt úr misrétti? Það er mikilvæg spurning og svar fyrirspurnarinnar hlýtur að leiða hugann að því hvort og hvernig hægt sé að bregðast við brotum á jafnréttislögum og reglugerðum og hvort rétt sé að heimila einhverjar aðgerðir, þó ekki væru nema til að bæta rétt þeirra sem feta kynnu í fótspor kærenda og e.t.v. fælast frá því að kæra ef slíkt virðist ekki leiða til eins eða neins. Til þess að jafnréttislög séu í gildi í reynd verða þau að vera virk og markviss. Treysti ég því að sú lagasetning sem nú hefur verið boðuð muni verða virkari en það kerfi sem nú er við lýði.