Úrskurðir Jafnréttisráðs
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning og út af orðum hv. 2. þm. Reykv. vil ég segja þetta: Ég er afar stoltur af því að hafa tekið þá ákvörðun varðandi skólastjóraembættisveitingu í Ölduselsskóla sem ég var dæmdur fyrir í Jafnréttisráði. Þar hlýddi ég á raddir foreldra, kennara og annarra aðstandenda þessa skóla. Reynslan af skólastarfi á þessu ári hefur sýnt að sú ákvörðun var rétt.
    Ég bendi einnig á að ákvörðunin varðandi yfirkennarastöðu í Víðistaðaskóla átti víðtækan stuðning allra þeirra aðila sem í skólanum starfa. Ég vísa á bug þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á þessar embættaveitingar af þessum ástæðum og ég segi: Menntmrh. sem ekki hlýðir á fólk sem vinnur á akrinum, er á vinnustaðnum sjálfum, er á villigötum eins og hv. 2. þm. Reykv. ætti að þekkja örlítið til sjálfur.