Úrskurðir Jafnréttisráðs
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Þetta er mjög sérstök umræða sem hér á sér stað. Hæstv. félmrh. upplýsti hér áðan að hann gæti ekki gripið til neinna ráðstafana. Það er athyglisvert svar og má vera að svo sé. Samt sem áður er full ástæða til þess að vekja athygli á þessum málum.
    Hæstv. menntmrh. virðist vera að gera lítið úr úrskurðum Jafnréttisráðs og er það mjög slæmt, sérstaklega þar sem hans ráðuneyti hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna í jafnréttislögum. Mig langar til þess að benda hér á 10. gr. jafnréttislaga þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum skal veita fræðslu um jafnréttismál. Kennslutæki og kennslubækur sem þar eru notuð skulu vera þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað. Við nám og starfsfræðslu í skólum skal leitast við að breyta hinu venjubundna starfs- og námsvali kvenna og karla til samræmis við tilgang laga þessara. Menntmrn. ber ábyrgð á framkvæmd þessa ákvæðis í samráði við Jafnréttisráð.``
    Og mér er spurn: Hvaða fordæmi er hæstv. menntmrh. að gefa í þessum dæmum sem rakin voru hér áðan? Ætli það samræmist markmiði 10. gr. jafnréttislaga? ( Menntmrh.: Grunnskólalaganna.)