Úrskurðir Jafnréttisráðs
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að þegar hæstv. menntmrh. loks fékkst til þess að tjá sig hér um þessi mál gerir hann það á þeim grundvelli að úrskurðir Jafnréttisráðs í þessum málum, sem eru undirstaða þessarar fyrirspurnar, séu bara tómt rugl og einhvern veginn allt öðruvísi en hann hefði viljað hafa þá. Ég hlýt auðvitað að hafna þessu. Það hlýtur að verða að ganga út frá því að ráðið, í samhljóða úrskurði sínum þar sem allir ráðsmenn eru sammála, fari í einu og öllu eftir gildandi lögum. Og ef ráðherra vill draga það í efa á hann auðvitað að bera það undir einhverja aðra aðila. Vill hann þá ekki bara kæra ráðið fyrir að kveða upp ranga úrskurði, taka málið upp fyrir dómstólum? ( Menntmrh.: Ég hef velt því fyrir mér.) Já, hann hefur velt því fyrir sér, segir hann, og hvernig væri þá að láta bara á það reyna, virðulegi ráðherra?
    Það sem eftir stendur í þessari umræðu, virðulegi forseti, er að það er upplýst að í fjórum tilvikum hefur íslenskur ráðherra verið talinn brotlegur við jafnréttislög. Í þremur tilvikum er um að ræða núv. hæstv. menntmrh. Þetta er glæsilegur ferill fyrir fyrrv. formann Alþb.