Útgerð Andra BA
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Spurt er hvort stjórnvöld eða ríkisstjórn telji sig bera ábyrgð á kaupum og útgerð umrædds skips og hvort einhverjar skýringar séu á þeim samningi sem gerður var um það, að hann sé einhvern veginn öðruvísi en menn upphaflega ætluðu. Svörin eru á þessa leið:
    1. Samningurinn var gerður árið 1984, svokallaður GIFA-samningur, ,,Governing International Fisheries Agreement``, milli Íslands og Bandaríkjanna, að formi til um gagnkvæmar fiskveiðar eða nýtingu á fiskveiðiheimildum, fiskikvótum, með þeim ströngu fyrirvörum að hann er þó alls ekki gagnkvæmur að því er varðar Ísland.
    Feril málsins má rekja í smáatriðum, til þess er ekki tími, frá árinu 1984, en rétt er að geta þess að útgerð þessa skips, Andra, hafði á árinu 1989 sótt um, samkvæmt þessum samningi, og fengið heimild til að vinna allt að 30 þúsund tonn af þorski um borð í þessu skipi af kvóta sem var sameiginlega ætlaður erlendum vinnsluskipum, allt að 67 þúsund tonn í samvinnu við bandaríska fiskibáta, enda er þetta fyrirtæki í samvinnu við fyrirtæki í Alaska sem mun heita Alaska Joint Venture Seafood Incorporated með heimilisfangi í Anchorage.
    Ástæðan fyrir því að ekki tókst að nýta þennan kvóta var sú að skipið komst ekki á vettvang fyrr en undir árslok þannig að í raun og veru er þar um að ræða afgang af þessum kvóta. Síðan er það staðreynd í þessu máli að yfirvöld í Kanada buðu ekki upp á framlengingu á þessum kvóta þó að þau hafi boðið kannski einhverja aðra kosti að því er varðar aðrar fisktegundir en skipið er búið undir flökun á þorski.
    Hver er hlutdeild og ábyrgð stjórnvalda á þessu? Og nú svara ég einungis fyrir utanrrn. Utanrrn. er handhafi þessa samnings frá árinu 1984 og hefur haldið honum við, sótti m.a. um endurnýjun á honum til tveggja ára árið 1989,
þ.e. fyrir árin 1990--1991, þannig að íslenskir aðilar sem sækja um gagnvart þessum samningi verða að láta þá umsókn sína fara um hendur sendiráðsins í Washington. Í þeim skilningi hefur utanríkisviðskiptaráðuneytið látið í té stimpil og frímerki til þess að koma þessari umsókn áleiðis.
    Hitt er svo annað mál að ef spurt er um frekari málarekstur, þá er ráðuneytið, eins og ég sagði, handhafi samningsins og það er skylda utanríkisviðskiptaráðuneytisins að aðstoða íslensk fyrirtæki í samskiptum við erlend stjórnvöld og þegar leitað hefur verið til okkar um það höfum við að sjálfsögðu gert það til þess að reyna að tryggja að samningnum verði framfylgt eins og efni standa til.
    Það er rétt að þegar útgerðaraðilarnir leituðu til okkar í desember tókum við málið upp undir forustu sendiherra okkar í Washington og höfum átt viðræður við bandarísk stjórnvöld til þess bæði að greiða fyrir því og ýta á um það að þær samningsbundu heimildir fyrir árið 1990, sem út af fyrir sig eru heimildir, fáist nýttar. Það eru afskipti utanríkisviðskiptaráðuneytisins

af málinu og þau eru af því tagi að þar erum við að gegna skyldum okkar og þjónustu við íslenskt fyrirtæki eins og við gerum að sjálfsögðu þegar eftir er leitað, hver svo sem í hlut á.