Útgerð Andra BA
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka svör ráðherra og að meginhluta til eru þau staðfesting á því að enn halda íslensk stjórnvöld því fram að samningur hafi verið gerður við Bandaríkin á þann veg að um veiðiheimildir hafi verið að ræða ( Utanrrh.: Nýtingu á veiðiheimildum.) --- eða nýtingu á veiðiheimildum, það er nú orðalagsbreyting --- en allar þær fréttir sem borist hafa frá viðræðum milli aðila í Alaska og íslenskra aðila, jafnvel fulltrúa okkar úr utanrrn., eru á þann veg að aldrei hafi staðið til að veiðiheimildir tengdust í einu eða neinu þessu vinnsluleyfi sem Andri hefur eða getur fengið ef hann borgar tilskilin veiðileyfisgjöld. Það virðist því vera að hér hafi verið sett á stofn útgerð, keypt dýrt skip, farið langar leiðir, í trausti þess að um það væri að ræða að hægt væri að hefja vinnslu beinlínis í tengslum við þann samning sem hér hefur verið til umræðu. Það virðist sem íslensk stjórnvöld hafi á einhvern hátt misskilið þennan samning sem gerður hefur verið á milli íslenskra stjórnvalda og bandarískra. A.m.k. virðist framkvæmd málsins vera á þann veg að skipið er komið vestur til Alaska og fær engan afla til þess að vinna.
    Fullyrðingarnar hér á hv. Alþingi fyrir tæpu ári síðan um það að hér væri um veiðiheimildir að ræða og bréf það sem hæstv. samgrh. las hér voru yfirskriftir um það að ekki væri eingöngu um vinnsluleyfi að ræða heldur veiðiheimildir. Ef svo er ekki, og eins og hæstv. utanrrh. raunverulega benti á í frammígripi, að ekki væri um veiðiheimildir að ræða heldur heimild til þess að ganga inn í eða njóta annarra veiðiheimilda, hefur Alþingi verið blekkt hér fyrir ári síðan. Og það var ekki aðeins að fullyrt væri við hv. þm. að hér væri um veiðiheimildir að ræða sem nauðsynlegt væri að nýta, heldur þurfti málið að ganga fyrir sig með sérstökum hraða hér í gegnum þingið. Ráðherra lagði mikla áherslu á það að til þess að hægt væri að eiga
þessi kaup væri nauðsynlegt að málið gengi hér fyrir sig með sérstöku forgangshraði á þeirri forsendu að verið væri að nýta veiðiheimildir við strendur Alaska. Svo er upplýst hér að þessar veiðiheimildir hafi verið fengnar með samningi 1984 þar sem samið hafi verið um gagnkvæmar veiðiheimildir en reyndar bætt við að gagnkvæmni gagnvart Íslendingum hafi verið tryggð á þann veg að þær yrðu ekki framkvæmdar. Hvers slags samningur er það ef verið er að gera samning um gagnkvæmar veiðiheimildir þar sem annar aðilinn á að skila einhverjum hlut en gagnkvæmnin á hinn veginn er í samningnum einhvern veginn felld úr gildi um leið?
    Því miður er ég hræddur um að þessi samningur hafi verið á þann veg að þar hafi átt að krefjast einhvers af Íslendingum ef um veiðiheimildir væri að ræða. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að benda á ýmsa þætti sem væri hægt að stilla okkur upp við ef um þann hlut væri að ræða, að við ættum að skila einhverri gagnkvæmni á móti, en það er náttúrlega

svo ískyggilegt að hugsa til þess ef íslensk stjórnvöld hafa raunverulega með yfirlýsingu um það að hér væri um veiðiheimildir að ræða fengið aðila til þess að kaupa skip og sigla því vestur til Bandaríkjanna án þess að um raunverulegan samning, tryggan samning, væri að ræða. Íslensk stjórnvöld hljóta vitaskuld að taka ábyrgð á þessu, hvað sem þau segja í dag. Ef Andri BA nær ekki því að fá fisk til vinnslu hefur orðið þarna stórkostlegur skaði hjá útgerðinni. Þetta skip er ekki hægt að nýta hér við heimaveiðar og þá hljóta íslensk stjórnvöld að finna fyrir því að þau verða einhvern veginn að koma sér úr þessari klípu og eru jafnvel fullkomlega ábyrg fyrir þessum kaupum og fyrir þessari tilraun til veiða við Alaskastrendur.