Útgerð Andra BA
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Það virðist nú vera ljóst að mikið skortir á það að menn séu nægilega upplýstir um þetta mál.
    Fyrsta spurning: Um hvað var þessi samningur? Samningurinn er út af fyrir sig um heimildir til veiða, töku eða nýtingar á fiski. En það er alveg ljóst að hér er um að ræða sameiginlegt áhættufyrirtæki íslenskra og bandarískra aðila. Það samkomulag var um það að hinn erlendi samstarfsaðili annast veiðar. Hið íslenska skip var frá upphafi útbúið fyrir vinnslu og fór aldrei neitt á milli mála og enginn blekktur og enginn skortur á upplýsingum. Á grundvelli samningsins fékk þetta fyrirtæki vinnslukvóta upp á allt að 30 þúsund tonn úr sameiginlegum kvóta. Auðvitað gat það hent --- það var áhætta tekin --- að þessi kvóti veiddist ekki. Það gat líka hent að skipið kæmist aldrei á staðinn, enda reyndist það svo, það komst ekkert á staðinn og gat ekki nýtt þá heimild sem það sannanlega hafði til þessarar vinnslu.
    Ef menn spyrja síðan: Nú og hvað með næsta ár? Samningurinn er framlengdur. Hann er enn í gildi. En útgerðaraðilum var að sjálfsögðu ljóst að það lá ekkert fyrir um það fyrir fram hvaða kvótum yrði úthlutað á næsta ári. Það var ekki ráðuneytis að segja þeim neitt til um það. Það er samstarfsaðilinn sjálfur sem hafði af því mestar áhyggjur úr því að skipið komst aldrei á staðinn að þetta væri engan veginn tryggt. Og með því að líta bara á tölur um hver hefur verið hlutur útlendinga og sameiginlegra áhættufyrirtækja á þessu svæði, líta á tölur t.d. frá Japan, var mönnum það ljóst að þær hafa verið breytilegar frá ári til árs. Mætti t.d. nefna sem dæmi að árið 1985 höfðu japönsk skip veitt samkvæmt svona samningi meira en 1,1 millj. tonna innan bandarískrar efnahagslögsögu. Árið 1989 var þeim ekki leyft að veiða nokkurn skapaðan hlut, 1,1 millj. tonn og ekkert. Þannig að ef menn eru að spyrja um áhættu, þá ítreka ég: Hér var verið að stofna áhættufyrirtæki á
grundvelli samnings. Samningurinn kveður ekki á um kvóta. Samningurinn úthlutar ekki kvótum. Hann gefur heimild til að sækja um kvóta og það er auðvitað breytilegt frá ári til árs. Og lögfræðilegur ráðgjafi fyrirtækisins hafði reyndar varað við því að það hefði mjög skaðleg áhrif og yki áhættuna ef skipið kæmist ekki á vettvang til þess að nýta kvótann í ár. ( Gripið fram í: Nýta hann sl. ár.) Sl. ár, 1989. Þannig að tal um ábyrgð ríkissjóðs og ábyrgð stjórnvalda, bótakröfur á hendur stjórnvöldum í þessu máli --- það er satt að segja bara ábyrgðarhlutur að hv. alþm. skuli gerast talsmaður slíkra sjónarmiða án þess að hafa kynnt sér málið. Fyrir því er ekki hinn minnsti fótur. Að sjálfsögðu höfum við látið í té alla fyrirgreiðslu við útgerðaraðilana, lagt í verulegan kostnað við að aðstoða þá við umsókn á kvótum og við að ná beinum og milliliðalausum aðgangi að bandarískum stjórnvöldum vegna þess að það er nú m.a. bandaríska viðskiptaráðuneytið sem fer formlega með úthlutunarvald fyrir utan ráðið í Alaska. Allar ásakanir

á hendur stjórnvöldum í þessu máli eru því gjörsamlega út í hött. Við höfum reynt að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að leiðbeina þessum mönnum og liðsinna og ætlumst ekki til neinna þakka fyrir það vegna þess að það er okkar skylda. En málflutningur af því tagi sem hv. þm. var með hér áðan, hann á enga stoð í neinum rökum.