Útgerð Andra BA
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans. Ég vil ítreka að mér virðist allt benda til þess að ábyrgð íslenskra stjórnvalda sé mun meiri í þessu máli en fram hefur komið hér í umræðunni.
    Hæstv. ráðherra segir að útgerðaraðilum hljóti að hafa verið ljóst að þeir væru að taka þarna mikla áhættu. Ég vil svara því á móti, án þess að hafa fengið þau gögn í hendurnar sem nauðsynleg eru til þess að vita enn nánar um þetta mál, þ.e. afskipti stjórnvalda, að stjórnvöld hljóta að hafa þá meginskyldu, og ég vil undirstrika það, hljóta að hafa þá meginskyldu að vekja athygli aðila á því hverjar hugsanlegar breytingar kunna að verða á jafnviðkvæmu máli eins og úthlutun kvóta við Alaska er og raun ber vitni um. Þetta hlýtur að vera skylda stjórnvalda, þar sem maður hlýtur að álykta sem svo að útgerðaraðilar sem stofna til þeirra fjárfestinga með samþykki íslenskra aðila hljóti að vera í mjög góðri trú um það að þeir búi við sömu vinnslumöguleika árið 1990 og voru fyrir hendi árið 1989. Þannig að í þeim efnum hlýtur ábyrgð íslenskra stjórnvalda að vera mikil.
    Ég vildi óska eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherrar leggi hér á hinu háa Alþingi fram þau gögn sem lúta að þessu máli í skriflegri skýrslu. Ég vona að ég þurfi ekki að fara fram á það með skriflegum eða hefðbundnum hætti en geri það hér með munnlega.