Varðveisla ljósvakaefnis
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Reykv. fyrir að flytja þessa till. Hér er hreyft mjög þörfu máli. Það eru mörg álitaefni í þessu sambandi, hverjir það eru sem varðveisluskylduna ættu að hafa ef hún yrði ákveðin, hverjir eiga að sjá um að efnið komist til skila. Eru það einstakar hljóðvarps- og sjónvarpsstöðvar eða eru það aðrar stofnanir eins og Þjóðskjalasafn eða Þjóðarbókhlaða eftir atvikum? Satt að segja hef ég velt þessu máli pínulítið fyrir mér og hefur sýnst að eðlilegt væri að almenn lagaákvæði um þetta efni fylgdu útvarpslögum eða þeim lögum sem heimila notkun ljósvakamiðla eða um ljósvakamiðla yfirleitt. Einnig gæti þurft í þessu sambandi að setja inn fyllri ákvæði t.d. í lögin um Þjóðskjalasafnið sem mér sýnist í fljótu bragði að væri eðlilegt að hefði yfirlit yfir þessi mál og reyndi að framfylgja almennum reglum sem settar yrðu um varðveislu ljósvakaefnis, þess efnis sem kemur í útvarpi og sjónvarpi.
    Eins og hv. þm. gat um eru engar reglur til um þetta í raun og veru. Það eru auðvitað til ákveðnar starfsreglur í Ríkisútvarpinu og hafa lengi verið til og byggðust á gömlum lögum og venjum. Eftir að fleiri aðilum var opnuð leið til þess að nýta sér ljósvakamiðla hefur hins vegar engum reglum verið framfylgt í þessu efni. Ég hygg að einstakar útvarpsstöðvar, margar hverjar a.m.k., varðveiti mjög lítið af því efni sem þær flytja. Ástæðulaust er auðvitað að setja þær kvaðir á þessar stofnanir eða þessi fyrirtæki að þau varðveiti allt það efni sem þau flytja, það er auðvitað algjörlega ástæðulaust, en einhverjar almennar rammareglur mætti hugsa sér að yrðu til sem yrðu þá settar einmitt fyrst og fremst á menningarsögulegum forsendum, þ.e. með hliðsjón af því hvað ætla má að næstu ár, ég tala nú ekki um komandi kynslóðir, hefðu áhuga á eða þyrftu að fá upplýsingar um.
    Það er rétt sem hv. þm. segir, að þær upplýsingar um þjóðmálaumræðu t.d. eða samtímasögu sem liggja fyrir í prentuðu máli gefa takmarkaðri mynd af samtímasögunni en áður var, engan veginn tæmandi og þess vegna er hér hreyft mjög þörfu máli. Ég endurtek þakkir mínar til hv. 2. þm. Reykv. fyrir að hreyfa því hér og leyfi mér að láta í ljós þá ósk að hv. félmn. Sþ. fari vandlega yfir málið þegar það kemur til hennar, einnig auðvitað með hliðsjón af þeim lagafrv. sem fjalla um hliðstæð mál og lögð hafa verið fyrir eða kunna að verða lögð fyrir þetta Alþingi.