Flm. (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um starfsreglur fyrir Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins. Flm. eru þeir alþingismenn sem þátt hafa tekið í starfsemi Íslandsdeildarinnar á þessu kjörtímabili, þ.e. þingmennirnir Geir Gunnarsson, Kristín Einarsdóttir, Ólafur Þ. Þórðarson og Sighvatur Björgvinsson auk þess sem hér stendur. Þess skal getið að hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands, Júlíus Sólnes, hefur einnig tekið þátt í störfum deildarinnar á kjörtímabilinu og er sammála þessari till. þó að hann af eðlilegum ástæðum sé ekki flm.
    Þannig háttar til, virðulegi forseti, að íslenskir alþingismenn hafa tekið þátt í störfum Alþjóðaþingmannasambandsins, sem á ensku er kallað Inter-Parliamentary Union, meira og minna samfleytt frá árinu 1951 þegar stofnuð var hér sérstök Íslandsdeild sem fékk aðild að sambandinu. Þátttakan hefur verið breytileg frá ári til árs en hefur verið í nokkuð föstum skorðum um allnokkurt árabil eins og ég hygg að margir þingmenn þekki af eigin raun. Engu að síður er það svo að ekki hafa verið í gildi ákveðnar starfsreglur fyrir Íslandsdeildina eins og þó verður að telja eðlilegt um starfsemi af þessum toga til þess að tryggja nauðsynlega festu í starfinu og eðlilega samfellu við þau verkefni sem unnið er að í samstarfi sem þessu á alþjóðavettvangi. Reyndar er það þannig að í lögum sambandsins, sem fylgja með þessari þáltill. sem fylgiskjal, er kveðið á um það að sérhver þjóðdeild í sérhverju aðildarþingi skuli setja sér sérstakar starfsreglur og má segja að það sé ekki seinna vænna að uppfylla það skilyrði í lögum sambandsins nú á þessu ári.
    Stjórn þeirrar Íslandsdeildar sem hefur starfað á þessu kjörtímabili, þ.e. þeir þm. sem flytja till., tóku upp þá reglu á síðasta þingi að gera reglulega með formlegum hætti grein fyrir störfum sínum í þessu samstarfi. Ég vísa til tveggja þingskjala sem fram voru lögð á síðasta þingi, þskj. 139 og 911, og sömuleiðis þskj. 109 á yfirstandandi þingi þar sem eru skýrslur Íslandsdeildarinnar og gerð rækileg grein bæði fyrir starfsemi þessara samtaka, Alþjóðaþingmannasambandsins, og sömuleiðis starfsemi Íslandsdeildarinnar á umræddu tímabili. Þar kemur fram með hvaða hætti þeim fjármunum sem til þessa samstarfs er varið hefur verið eytt af hálfu Íslandsdeildarinnar. Þetta tel ég að sé sjálfsögð kvöð sem rétt sé að leggja á aðila sem þátt taka í samstarfi af þessu tagi á vegum Alþingis. Ég tel reyndar einnig að starfsreglur eigi að gilda fyrir allt alþjóðlegt samstarf af þessu tagi sem er með formlegum hætti á vegum Alþingis eins og þetta og vona að þau drög sem hér liggja fyrir sem till. til þál. megi koma að nokkru gagni við samningu slíkra reglna fyrir aðrar alþjóðanefndir. Telja verður eðlilegt að nokkurt samræmi sé á milli slíkra reglna milli hinna einstöku alþjóðanefnda, þó að teknu tilliti til þeirra frávika sem kunna að vera í lögum viðkomandi sambanda sem

geta verið breytileg frá einu tilviki til annars eftir eðli máls. Jafnframt höfum við í Íslandsdeildinni sem nú starfar uppfyllt þær upplýsingaskyldur til Alþjóðaþingmannasambandsins sem kveðið er á um í lögum þess, en nokkur misbrestur hafði orðið á því á árum áður að gerð væri grein fyrir starfsemi Íslandsdeildarinnar til aðalstöðvanna í Genf.
    Þetta, virðulegur forseti, var inngangur að kynningu á þeim reglum sem hér liggja fyrir í drögum af okkar hálfu. Reglurnar skiptast í nokkrar greinar, sjö megingreinar og eitt ákvæði til bráðabirgða. Allt eru þetta ákvæði sem telja verður eðlilegt og sjálfsagt að fyrirfinnist í reglum af þessu tagi.
    Hin fyrsta er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins (Inter-Parliamentary Union) er skipuð alþingismönnum og starfar í sambandi við tilgang sambandsins, sbr. lög þess sem fylgja með starfsreglum þessum.``
    Þessi grein þarfnast ekki skýringa, en rétt er að taka fram að með því orðalagi sem hér er haft á er í raun og veru litið svo á, eins og jafnan hefur verið á vegum Íslandsdeildarinnar, að allir alþingismenn séu þar aðilar og geti tekið þátt í störfum nefndarinnar þó svo að þeir hafi ekki verið tilnefndir sérstaklega í stjórn deildarinnar af sínum þingflokkum.
    Í 2. gr. segir svo, með leyfi forseta: ,,Stjórn Íslandsdeildarinnar skipa fimm þingmenn tilnefndir af þingflokkunum í samræmi við stærð þeirra eða eftir samkomulagi þingflokka. Heimilt er að tilnefna varamenn í stjórnina. Tilkynna skal um tilnefningar á fundi í sameinuðu þingi.``
    Hér er kveðið á um hversu margir þingmenn skulu vera í stjórn Íslandsdeildarinnar og er gert ráð fyrir því að þeir verði fimm talsins. Jafnframt er gert ráð fyrir því að þingflokkar tilnefni í stjórnina í samræmi við þingstyrk eins og tíðkast um tilnefningar og kosningar hér á Alþingi í nefndir og ráð. Þó er gert það frávik að heimilt er að víkja frá þessu atriði ef um það er samkomulag milli þingflokka, eins og vel er hugsanlegt og oft er gert eins og þingmenn þekkja.
    Rétt er að geta þess að þetta ákvæði, þetta orðalag er í nokkru frábrugðið
því sem tíðkast hefur í þessu samstarfi hér á Alþingi. Það hefur verið svo að sérhver þingflokkur hefur tilnefnt einn mann til að sitja í stjórn Íslandsdeildarinnar án þess þó að um það séu neinar formlegar reglur eða ákvæði. Stjórnin telur hins vegar eðlilegt að um þetta gildi sömu reglur og um aðrar tilnefningar í nefndir og ráð, að það sé sem sagt miðað við stærð þingflokka og hlutfallskosningu, ef svo mætti segja, tilnefningu í hlutfalli við stærð þingflokka. Þó er rétt að vekja athygli á því að lagt er til í ákvæði til bráðabirgða að þær tilnefningar sem fram fóru í upphafi kjörtímabilsins til þessara verkefna haldist óbreyttar þannig að þeir þingflokkar sem þá tilnefndu fulltrúa haldi sinni tilnefningu út þetta kjörtímabil. Í raun og veru kemur þetta ákvæði um tilnefningu í samræmi við stærð þingflokka því ekki til framkvæmda fyrr en í upphafi næsta kjörtímabils. Rétt er að vekja athygli á því að þátttakan sjálf,

þátttaka þingmanna, hefur ævinlega miðast við stærð þingflokka og verið farið þar að í samræmi við eðlilegar hlutfallsreglur, og hefur svo gilt um þátttöku í einstökum þingum eða starfsemi á vegum sambands að öðru leyti. Hér er einnig skotið inn ákvæðum um að tilnefna megi varamenn og jafnframt sú eðlilega regla fram tekin að tilkynnt skuli um tilnefningar á fundi í Sþ. Þar með liggur fyrir skjalfest í þingtíðindum hverjir hafa verið tilnefndir til þessara verkefna.
    Í 3. gr. segir svo, virðulegi forseti: ,,Tilnefning í stjórn skal fara fram eftir hverjar þingkosningar og gildir út kjörtímabilið nema þingflokkar ákveði annað.
    Fulltrúi stærsta þingflokksins skal kalla stjórnarmenn saman til fyrsta fundar og skal þá kjósa formann og varaformann Íslandsdeildarinnar fyrir kjörtímabilið.
    Stjórnin getur heimilað fyrrverandi þingmönnum, sem uppfylla skilyrði Alþjóðaþingmannasambandsins þar að lútandi, aðild að Íslandsdeildinni sem heiðursfélagar án atkvæðisréttar, sbr. 7. gr. laga sambandsins.``
    Hér er um það að ræða í fyrsta lagi, virðulegi forseti, að kveðið er á um að tilnefna skuli í stjórnina eftir hverjar þingkosningar og skuli tilnefningin gilda út kjörtímabilið nema þingflokkar ákveði annað. Þ.e. gert er ráð fyrir því að ef þingflokkur sér ástæðu til geti hann skipt um fulltrúa í þessari stjórn. Það eru þarna eðlileg ákvæði um hvernig kalla skuli stjórnina saman og um kjör formanns og varaformanns. Loks er ákvæði um heiðursfélaga sem virkar kannski sérkennilega en er hins vegar eingöngu sett til að opna fyrir möguleika sem beinlínis er gert ráð fyrir í lögum sambandsins sjálfs. Ákvæði sem þetta er að finna í öllum þeim starfsreglum annarra þjóðdeilda sem ég hef séð og þykir eðlilegt að þetta ákvæði fyrirfinnist í reglunum hér þó svo að það hafi fram til þessa ekki haft neina þýðingu fyrir störf Íslandsdeildarinnar og óvíst hvort það muni gera það í framtíðinni.
    Í 4. gr. er gert ráð fyrir því að Íslandsdeildinni sé heimilt að tilnefna ritara í samráði við skrifstofustjóra Alþingis. Þetta er eðlilegt ákvæði. Deildin hefur haft aðstoð ritara undanfarin ár, reyndar alllengi. Áður gegndi skrifstofustjóri þingsins þessu verkefni sjálfur. Síðan hefur verið valið í þetta eftir öðrum leiðum og nú heyra þessi störf, að því er mér skilst, í hinu nýja skipulagi Alþingis undir þingsvið skrifstofunnar. Í framtíðinni, þegar kemur til slíkra tilnefninga, mun þá væntanlega verða haft samráð milli stjórnardeildarinnar og skrifstofustjóra Alþingis eða þess yfirmanns á skrifstofu þingsins sem hann hefur falið að fjalla um þessi mál.
    Í 5. gr. er gert ráð fyrir því að sótt sé árlega um fjárveitingu á fjárlögum til starfsemi deildarinnar sem nægi til að standa straum af þeim kostnaði sem af þessu samstarfi hlýst. Sérstaklega er tekið fram að reikningar skuli endurskoðaðir með sama hætti og önnur útgjöld Alþingis.
    Í 6. gr. segir svo, með leyfi forseta: ,,Stjórn

Íslandsdeildarinnar ákveður þátttöku deildarinnar í starfi sambandsins á ári hverju. Um val þátttakenda á þingum og ráðstefnum skal miða við hlutfallsreglu eftir stærð þingflokka en jafnframt leitast við að tryggja að þingmenn úr öllum þingflokkum fái tækifæri til að sækja þing eða ráðstefnur sambandsins á kjörtímabilinu. Enn fremur skal reyna að tryggja eðlilega samfellu í starfi deildarinnar.
    Formaður skal að jafnaði sitja í ráði sambandsins en aðrir stjórnarmenn skiptast á um að taka þar sæti eftir sömu hlutfallsreglum og gilda um þátttöku skv. 1. mgr. þessarar greinar.``
    Hér er vikið að því sem ég hef þegar getið um, virðulegi forseti, þ.e. að þátttakan sjálf, þátttaka í þingum eða ráðstefnum á vegum deildarinnar, ákveðst svo sem verið hefur í hlutfalli við stærð þingflokka. Stjórn deildarinnar áætlar þátttökuna á hverju ári, gerir áætlanir fyrir það starf sem fram undan er og skipuleggur það með þeim hætti sem viðeigandi telst. Rétt er að vekja athygli á því að gert er ráð fyrir því og tekið fram að reyna skuli að tryggja að allir þingflokkar fái á hverju kjörtímabili einhvern möguleika til þess að kynna sér þá starfsemi sem þarna fer fram og tækifæri til að sækja þing eða ráðstefnur á kjörtímabilinu.
    Loks er þess getið að reynt skuli að tryggja eðlilega samfellu í starfi
deildarinnar þannig að tryggt sé að starfið falli ekki niður og jafnan séu einhverjir aðilar sem hafi aðstöðu til þess að fylgjast samfellt með því sem fram fer á vegum sambandsins. Það er alveg ljóst að í því sambandi er starf ritarans mjög mikilvægt. Síðan er kveðið á um hverjir sitja í ráði sambandsins og það er í samræmi við reglurnar sem fyrir eru lagðar í lögum sambandsins.
    Í 7. gr. er gert ráð fyrir því að reglur þessar taki þegar gildi og í ákvæði til bráðabirgða er talað um, eins og ég vék að áðan, að þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skuli tilnefningar í stjórn Íslandsdeildarinnar á þessu kjörtímabili haldast óbreyttar þó að ákveðnar mannabreytingar geti þar að sjálfsögðu orðið.
    Ég hef þá, virðulegi forseti, gert grein fyrir þessum ákvæðum og hyggst ekki lengja þetta mál. Ég mun víkja nánar að starfsemi deildarinnar í umræðum sem væntanlega munu fara fram mjög fljótlega um skýrslur alþjóðanefnda hér í Sþ. og gera þá nákvæmari grein fyrir því sem á dagana hefur drifið, ef svo mætti segja, í þessu starfi og þeim skýrslum sem útbýtt hefur verið í þinginu um starfsemi deildarinnar.
    Ég vil að lokum aðeins undirstrika það að ég tel rétt og nauðsynlegt að reglur sem þessar séu settar. Ég tel eðlilegt að hv. utanrmn., sem ég geri tillögu um að fái þessa tillögu til meðferðar, kanni þetta mál gaumgæfilega í samráði við deildarmenn og ritara deildarinnar. Ég tel jafnframt brýnt að reynt verði að ganga frá starfsreglunum á þessu þingi þannig að þær megi til framkvæmda koma, enda er það ekki eðlilegt að þessu formsatriði gagnvart sambandinu sjálfu skuli enn ekki fullnægt þó að alþingismenn hafi tekið þátt í þessu samstarfi í hartnær 40 ár. Auðvitað er það

miklu betra fyrir alla sem að þessu máli koma og í þessu starfi taka þátt að um það gildi fastmótaðar og ákveðnar reglur til þess að fara eftir sem tryggi bæði festu, samfellu og eðileg vinnubrögð að öllu leyti í þessum málum, óháð einstökum þingmönnum og þingflokkum.
    Ég leyfi mér svo að leggja til, virðulegi forseti, að þessari tillögu verði vísað til síðari umræðu og hv. utanrmn.