Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um viðskipti og menningarsamskipti við byggðir Vestur-Íslendinga í Kanada. Flm. ásamt mér er Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir alþm. Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að skipa nefnd er fái það hlutverk að kanna möguleika á að efla viðskipti og menningarsamskipti við byggðir Vestur-Íslendinga í Kanada. Nefndin skili áfangaskýrslu um störf sín fyrir árslok 1990.``
    Ástæðan fyrir því að þessi tillaga er flutt er viðleitni Borgfl. til að efla utanríkisviðskipti landisns. Hugmyndin að baki auknum viðskiptum við Vestur-Íslendinga í Kanada er einfaldlega að byrja eins nálægt heimavellinum og hægt er. Þarna eru hundruð þúsunda fólks sem er af íslensku bergi brotið eða tengt landinu á einn eða annan hátt. Í rauninni er þetta svipað dæmi og þegar menn hefja atvinnurekstur, til að mynda hér á Reykjavíkursvæðinu, iðnrekstur, framleiðslu eða innflutning, þá leita þeir oft til kunningja sinna og ættingja út um landið sem þeir biðja um að hjálpa sér við að koma vörunni á markað í þeirra heimabyggð. Þannig er þetta hugsað, að leita til frænda okkar og ættingja í Kanada. Viðskipti við Kanada eða Vestur-Íslendinga í Kanada hafa verið lítil og samskipti við þá hafa verið nokkur en þó aldrei mjög skipulögð.
    Ástandið hér á landi er mjög bágt um þessar mundir. Það er atvinnuleysi, það er kreppa, gjaldþrot. Við búum við háa skatta, við búum við rangláta eignarskatta og ranglátan matarskatt. Það er skylda stjórnvalda að gera allt sem í þeirra valdi stendur á slíkum tímum til þess að reyna að
glæða atvinnulífið, efla framleiðsluna, selja vörurnar úr landi. Þessi tillaga er liður í því að taka til höndum og reyna að vinna og efla nýjan markað fyrir íslenskar framleiðsluvörur í Kanada.
    Á sama hátt telja flm. rétt að efla menningartengsl við þennan þjóðarhluta, þessa ættingja okkar þarna, þó svo það lúti ekki að beinum viðskiptum. Tengsl milli þjóða eru ekki vöruviðskiptin ein heldur eru samskipti fólksins líka mikilsverð og við viljum gjarnan ýta undir samskipti við þessa frændur okkar verði glædd og þau megi verða ánægjuleg eins og gagnkvæm tengsl á milli ættingja eiga að vera. Þess vegna er þessi tillaga flutt.
    Að lokum mæli ég með að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og til hv. félmn.