Eftirlaunasjóðir einstaklinga
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Þegar hv. þm. Guðni Ágústsson talaði hér áðan datt mér eftirfarandi í hug: Það er vont að vera í brunatryggingafélagi ef það skyldi aldrei brenna hjá manni sjálfum. Það er alveg afleitt að þeir sem kann að brenna hjá skuli fá að njóta bótagreiðslna vegna þeirra iðgjaldagreiðslna sem ég og aðrir kynnu að hafa innt af hendi. Það er svona sambærileg hundalógík, finnst mér, í því þegar hv. þm. leggur hér fyrir hið háa Alþingi hugmyndir með þeim hætti sem hann gerir í lífeyrismálum íslensku þjóðarinnar, líka vegna þess að hv. þm. er stjórnarstuðningsmaður og hann sem slíkur hefði getað barist fyrir því í þingflokki Framsfl. að á hinu háa Alþingi væri lagt fram frv. um starfshætti lífeyrissjóðanna sem liggur í skrifborðsskúffu hæstv. fjmrh. Ég vænti þess að hv. þm. hafi fengið eintak af þessari skýrslu.
    Það er nú einu sinni þannig að við sem erum eldri en hv. þm. tókum mörg þátt í því á sínum tíma að stofna lífeyrissjóðina. Við stofnuðum ekki lífeyrissjóði til þess að fá ekki lífeyristryggingar þegar starfsævi er lokið. Við stofnuðum lífeyrissjóði til þess að fá greiddar tryggingar í samræmi við okkar iðgjaldagreiðslu til sjóðanna. Ég er t.d. í Lífeyrissjóði verslunarmanna og einn af stofnendum. Ég get ekki fallist á það, og ég efast um að hv. þm. hafi kynnt sér það, að þessi lífeyrissjóður sé gjaldþrota eða verði gjaldþrota árið 2020. Hv. þm. var hér með mjög miklar fullyrðingar og einfaldaði mjög viðkvæmt mál sem hinir mætustu menn úti á vinnumarkaðinum, verkalýðsforingjar, sem mér finnst hann nú tala niður til, og ýmsir fulltrúar vinnuveitenda hafa verið að fjalla um og reyna að leysa á síðustu áratugum. Það er létt verk að koma hér inn á hið háa Alþingi og segja við fólk: Ég er hér með hugmyndir sem eru gulltryggðar. Þið skulið leggja ykkar peninga inn á bankabækur og þá fáið þið þetta allt margfalt. Það er munur eða hjá þrjótunum sem stóðu að stofnun lífeyrissjóðanna, þ.e. það er munur eða það sem íslensk verkalýðshreyfing
hefur verið að vinna að á liðnum áratugum til að tryggja stöðu sína á sjálfstæðum grundvelli án stuðnings hv. alþm. og þar á meðal hv. þm. Guðna Ágústssonar. Ég hef ekki orðið var við að hv. þm. legði hér fram tillögur eða hugmyndir sem skiluðu þessu fólki betri tryggingum og þessi þáltill. gerir það ekki. En hún gerir annað. Hún gerir akkúrat það sem kom fram í ræðu hv. þm. hér áðan. Hún sáir efasemdum um mikilvægan þátt í samningum íslenskrar verkalýðshreyfingar á liðnum áratugum. Og það sem verra var, og því miður hefur maður ekki nema 8 mínútur til að tala hér um jafnmikilvægt og stórt mál og hér er á ferðinni, hann var með fullyrðingar sem eru rangar. Hann fullyrti t.d. að reksturskostnaður lífeyrissjóðanna væri á bilinu 4--40%. Greinilega hefur hann ekki lesið það sem einhverjir sérfræðingar úti í bæ --- það eru þeir sem eru alltaf með dæmin um hana Jónu og hann Jón, það

eru þessir hávaxtaspekúlantar í íslenskum fjármálamarkaði sem nota slíkar dæmisögur --- sömdu fyrir hann eða hv. þm. sem eru á bak við þessa þáltill. en þar er talað um reksturskostnað lífeyrissjóðanna. Með leyfi forseta ætla ég að lesa það sem stendur á bls. 5 og varðar Lífeyrissjóð verslunarmanna. Það vill svo til að ég er formaður í stjórn þar. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    Árið 1988 var rekstrarkostnaður 32,3 millj. og var það 2,6% af iðgjöldum til sjóðsins og 0,3% eigna.``
    Hefði hv. þm. lesið sína eigin greinargerð hefði hann ekki sagt að þetta væri á bilinu 4--40%. Ég skal hins vegar taka undir það að það verður að fækka sjóðum í landinu. Það verður að gera þá stærri og það þarf að auka rekstrarhagkvæmni eins og kemur fram hjá stóru sjóðunum og þar á meðal þessum sjóði.
    Hv. þm. sagði annað og vitnaði dálítið frjálst í það að opinberir starfsmenn væru óánægðir með sín kjör. Ég kannast ekki við það. Í blaði Starfsmannafélags ríkisstofnana, Félagstíðindum, frá 27. okt. 1987 segir orðrétt, með leyfi forseta, í leiðara: ,,Verjum lífeyrissjóðinn.`` Og síðan segir: ,,Atvinnurekendum okkar [þ.e. ríkisvaldinu] hefur löngum vaxið í augum hve Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna er dýr. Í síðustu samningum var okkur boðið upp á að skipta lífeyrissjóðnum fyrir nokkrar skitnar prósentur. Við sögðum nei.`` Þetta ber ekki vott um að opinberir starfsmenn séu óánægðir með sinn lífeyrissjóð.
    Virðulegi forseti. Ég vil segja þetta um frv.: Ef hið háa Alþingi vill efna til þess kostnaðar sem felst í því að framkvæma þá athugun sem þessi tillaga ber með sér er auðvitað sjálfsagt, ef hið háa Alþingi samþykkir það og ríkið tekur á sig þann kostnað, að gera slíka athugun. En ég ætlast til þess af hv. þm., sérstaklega með tilliti til þess að hér er ekki ótakmarkaður ræðutími, að þeir vandi allan málatilbúnað og láti það koma fram sem er satt og rétt.
    Í fyrsta lagi er það rangt að lífeyrissjóðirnir séu að fara á hausinn. Hins vegar samþykkjum við hv. þm. árlega að greiða hundruð millj. með Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Hann er farinn á hausinn og fór á hausinn fyrir löngu síðan en ekki þeir sjóðir sem hv. þm. beinir spjótum sínum að.
    Lífeyrissjóðirnir eru gagnkvæmar tryggingar og þær eru gerðar í samningum verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi við vinnuveitendur. Það er rangt að
lífeyrissjóðirnir séu gjaldþrota. Ég spyr: Hvað er tryggt á Íslandi áratugi fram í tímann? Ég fullyrði að lífeyrissjóðirnir standi hvað best af öllum stofnunum á Íslandi hvað þetta áhrærir og þeir eru ekki gjaldþrota.
    Hv. þm. sagði að erfitt væri fyrir sjóðfélaga að fá upplýsingar. Það er undantekning en ekki almenn regla. Allir stærstu sjóðirnir senda sínum sjóðfélögum upplýsingar um hver áramót um þeirra iðgjaldagreiðslur og stöðu. Hv. þm. segir almennt að ársreikningar sjóðanna hafi ekki legið fyrir árum saman. (Forseti hringir.) Ég verð, virðulegi forseti, að fá að svara þessu. Hér er um þvílíkan áburð að ræða

gagnvart þeim sem eru ábyrgðarmenn lífeyrissjóðanna úti í þjóðlífinu að ég verð að fá að svara þessu.
    Hv. þm. segir: Ársreikningar sjóðanna hafa ekki legið fyrir árum saman. ( GuðnÁ: Margra lífeyrissjóða.) Margra. Þá átti hv. þm. að tilgreina hvaða sjóðir þetta eru þannig að allir liggi ekki undir grun. Hann sagði einnig að lífeyrissjóðirnir brytu lög og reglur. Það er ekki rétt að mínu mati að leggja málið þannig fyrir, eins og hv. þm. gerði áðan.
    Varðandi það að á Íslandi séu tvær þjóðir í þessu máli, þá er það rétt, því miður. Það eru annars vegar þeir sem taka lífeyri sem opinberir starfsmenn og hins vegar þeir hinir sem eru úti í atvinnulífinu og tel ég mig til þeirra.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, segja þetta. Það ber að efla lífeyristryggingar á Íslandi. Undir það tek ég með hv. flm. þessarar þáltill. Það ber að afnema rangindi. Undir það tek ég einnig. En ég vil þá varpa fram þeirri hugmynd við hv. þm. hvort hann sé ekki reiðubúinn til þess ásamt mér og fleiri þm. að standa að frv. til laga um það að gjörbreyta lífeyriskerfi landsmanna þannig að við leggjum niður söfnunarsjóðina og tökum upp gegnumstreymiskerfið. Það lagði ég fram sem frv. að lögum árið 1976 fyrst og fékk ekki stuðning hv. þm. í röðum framsóknarmanna.
    Að lokum. Það var einföldun, órökstudd, þegar hv. þm. fullyrti að peningar lífeyrissjóðanna eða fólksins væru betur ávaxtaðir í bönkunum en lífeyrissjóðunum. Ég vek athygli á því að í bankakerfinu er fé ávaxtað með 5% raunávöxtun. Vaxtamunur inn- og útlána er 6% þannig að hv. þm. er að tala um útlánavaxtastig upp á 11% í bönkunum í sambandi við þetta. Það sem mundi gerast með þessari tillögu sem hv. þm. er að flytja hér er það að vextir mundu hækka almennt og staða atvinnuvega og lífeyrissjóðsþega og lántakenda þar með verða lakari sem því nemur.
    Að lokum. Ég er ekki farinn að sjá hvernig það verður unnt fyrir hinn almenna launamann ... ( Forseti: Ég vil minna hv. þm. á að hann getur tekið til máls aftur síðar. Nú er ég farinn að mismuna mjög hv. þm.) Ég veit það. Ég skal ljúka þessu. Ég vil vekja athygli á því í lokin, virðulegi forseti, að hvorki verkalýðshreyfingin né ríkið né hv. flm. geta tryggt það að fólkið geti örugglega fengið sínar greiðslur inn á 150 þús. bankareikninga þó svo að þessi þáltill. yrði samþykkt og framkvæmd.