Eftirlaunasjóðir einstaklinga
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég man eftir því að fyrir 20 árum kom einmitt þáltill. um að endurskoða þetta kerfi. Þá var lagt til að stefnt yrði að því að stofna einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Það urðu miklar umræður um þetta þá. Það var verið að stofna þessa stóru sjóði, Lífeyrissjóð verkamanna og Lífeyrissjóð bænda, og það þótti þá tímabært að gera könnun á því hvort ekki væri rétti tíminn til að taka ákvörðun um þessa breytingu.
    Ég hygg að svona þáltill. hafi komið a.m.k. fjórum sinnum síðan á þeim árum sem ég hef setið á Alþingi ( Gripið fram í: Og frv.) og frv. já, einu sinni eða tvisvar frv. En allt kom fyrir ekki. Ég hef að vísu ekki stúderað mikið þessa þáltill. Þarna er verið að benda á leið og það er búið að benda á ýmsar leiðir áður. Það er eitt sem hv. þm. mega ekki gleyma og það er að þeir sem hafa nú skapað sér réttindi mundu tæpast tapa þeim samkvæmt stjórnarskránni þó að þetta skref yrði tekið sem hv. flm. eru að leggja til. Það er misskilningur sem kom fram hjá einum ræðumanni, þetta er ekki frv., þetta er ábending um hvernig frv. ætti að vera. Og ef till. yrði samþykkt væri ríkisstjórninni falið að kanna möguleika á að semja slíkt frv., eða láta semja slíkt frv.
    Galli er á þessum hugmyndum og hann er sá að í staðinn fyrir rúmlega hundrað lífeyrissjóði þá eru í raun og veru komnir sjóðir jafnmargir þeim sem vinna í landinu, þ.e. þetta fé er inni á 130--160 þús. bankabókum.
    Annar galli á þessu er sá að þarna er ekki lagt til að jafna á milli einstaklinganna, sem ég held að hafi verið markmiðið í flest þau skipti sem þessum málum hefur verið hreyft hér á Alþingi. Ég vil ekkert fullyrða hvort sá útreikningur sem hér er sýndur er réttur. En mér kæmi ekki á óvart, þegar slíkur útreikningur verður endurskoðaður, þó þar sé einhver feill og hann verulegur. En það á ég eftir að kanna.
    Ég held að þegar litið er á þessi mál þá séu e.t.v. einhverjir kostir við þessa leið en ókostirnir eru líka margir. Og aðalókosturinn er sá að þarna er ekki verið að jafna á milli og það er það sem þarf fyrst og fremst að stefna að.