Eftirlaunasjóðir einstaklinga
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir lokaorð hv. þm. Guðna Ágústssonar að það væri vissulega æskilegt ef hægt væri að eyða þeirri óvissu sem fólk býr við í sambandi við ellilífeyris- og tryggingamál. En því miður, þar sem ég gerði ráð fyrir því að hv. þm. vildi ræða efnislega, eins og ég gerði áðan, um þær hugmyndir sem hann hefur sett fram, er engin trygging fyrir því að þessari óvissu verði aflétt þó stofnað væri til persónubundinna reikninga með þeim hætti sem hann greindi frá hér áðan.
    Ég vil einnig vekja athygli hv. þm. á því sem hefur e.t.v. farið fram hjá honum að bankakerfið hefur því miður verið með fé einstaklinga á reikningum sem hafa borið neikvæða raunvexti. Það er því engin trygging fyrir því þótt þessir 150 þúsund persónubundnu reikningar yrðu opnaðir í bankakerfinu --- það eru ekki nema þrír bankar í landinu núna, einn einkabanki og tveir ríkisbankar --- þá er engin trygging fyrir því að þetta bankakerfi mundi skila þeirri niðurstöðu sem hv. þm. væntir, og ég að sjálfsögðu vona líka, og vona ekki bara vegna þeirra hugmynda sem hér eru fram komnar heldur líka vegna lífeyriskerfisins sem við höfum nú.
    Ég vil undirstrika það að við hljótum að ræða hér efnisatriði. Það er talið að ávaxta megi fé með um það bil 5% raunvöxtum í bankakerfinu. Það er vitað að vaxtamunur inn- og útlána er 6% í þeim banka þar sem hann er lægstur þannig að verið er að tala um útlánavaxtastig upp á 11% í bönkunum ef það á að reynast rétt sem hv. flm. gerir ráð fyrir. Þá kemur spursmálið: Mundi t.d. launafólk eða atvinnureksturinn geta staðið undir slíkum vöxtum til frambúðar? Þá er einnig nauðsynlegt að fólk geri sér grein fyrir þeirri staðreynd að bestukjarareikningar bankanna báru allir neikvæða raunvexti á fyrri helmingi ársins 1989. Þar til viðbótar liggur fyrir margyfirlýst skoðun hæstv. forsrh., sem er
samflokksmaður hv. þm. Guðna Ágústssonar, að innlánsreikningar í bönkum beri of háa vexti. Og núna þessa stundina er ríkisvaldið að semja um það, í sambandi við samninga aðila vinnumarkaðarins, að lækka vexti verulega.
    Þótt deila megi um núverandi lífeyrissjóðakerfi held ég að það væri nær og sé nauðsynlegt að menn skoði hvernig er hægt að efla það og styrkja þannig að tryggingalegar forsendur þessa kerfis stæðust betur frekar en ræða um það hvort ávaxta eigi þessa peninga í banka eða með þeim hætti sem reynt er að gera.
    Ég vil síðan, virðulegi forseti, minna á að ég lýsti eftir því við hv. þm., sem er stjórnarþingmaður, hvort hann vildi ekki stuðla að því að hér yrði lagt fram fyrir hið háa Alþingi frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða sem samið var af svokallaðri lífeyrissjóðanefnd með aðild ríkisins og var tilbúið 29. maí 1987. Í þessu frv., sem ég m.a. átti aðild að fyrir hönd Alþýðusambandsins, er kafli um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða. Þar sem ég á ekki von á

því að núv. hæstv. fjmrh. muni leggja þetta frv. fram, þá lýsi ég hér með yfir að ég mun leggja fram á þessu þingi kafla úr þessu frv., þar á meðal kafla er lúta að ársreikningum og endurskoðun lífeyrissjóðsreikninga. Þannig að ef hv. stjórnarþingmenn treysta sér ekki til þess, þá mun ég gera það einn ásamt þeim sem vilja skrifa undir það frv. með mér.
    Ég vil taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni. Það sem skiptir auðvitað meginmáli fyrir fólk, hvort sem það er í lífeyrissjóðum eða ekki, er hve háan lífeyri það fær í verklok, tryggan. Sem fyrrv. þátttakandi í verkalýðshreyfingunni, forustumaður í stóru stéttarfélagi, vil ég upplýsa að eitt mesta vandamál verkalýðshreyfingarinnar er að glíma við vanskil vinnuveitenda. Þessi vanskil eru mjög slæm oft og tíðum í sambandi við svonefnd launatengd gjöld. Lífeyrisgreiðslur heyra þar undir. Það yrði mjög flókið mál og erfitt að tryggja að ákveðinn hluti launafólks færi ekki illa út úr því kerfi sem hér er verið að leggja til, þótt það sé auðvitað skoðunarvert. Ég tók fram í mínu máli áðan að ég teldi rétt að skoða þetta. Ég lýsti aldrei yfir andstöðu við þáltill. sem slíka. Ég tel mig hafa svarað því sem hv. þm. Alexander Stefánsson sagði um eftirlitshlutverkið.
    Varðandi það hvað þessir almennu sjóðir mundu hugsanlega borga í verklok til fólks eins og þeir eru í dag, ég er ekki að tala um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, þá reiknast mér til ef maður miðar við svona 50 þús. kr. meðalgreiðslu á ári eftir að menn hafa öðlast full réttindi, sem kallað er, að þetta væru svona 5 millj. á 10 árum og færi upp í 20 millj. á 10 árum. Með vöxtum og vaxtavöxtum er það komið í svipaða upphæð og hv. frummælandi þessarar þáltill. gerir ráð fyrir að beinu bankareikningarnir mundu skila.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að tala lengur í þessari umræðu en ég vil aðeins segja þetta: Það er mjög þýðingarmikið þegar menn eru að ræða þessi mál að gera sér grein fyrir hinum félagslega þætti. Það er ekki einfalt mál að hverfa frá samtryggingarkerfi sem gerir ráð fyrir því að þeir sem betur eru staddir láti eitthvað af mörkum til þeirra sem verr eru staddir. Það er því
miður þannig að stór hópur fólks getur aldrei tryggt sér rétt. Lífeyrissjóðirnir voru hugsaðir m.a. þannig að reynt væri að tryggja rétt sem flestra á samtryggingargrundvelli. Ég kannast ekki við það úr neinu vestrænu ríki, hvorki Norður-Ameríku né Vestur-Evrópu, að menn séu komnir svo langt í auðhyggjunni að þeir hafi gersamlega kastað fyrir borð samtryggingarhugsjóninni gagnvart þeim sem verst eru staddir í þjóðfélaginu. Ég verð að segja það því miður, virðulegi forseti, að þessi þáltill. er að mínu viti hámark auðhyggju þar sem öllum félagslegum sjónarmiðum, samtryggingarsjónarmiðum og samhjálparsjónarmiðum er kastað fyrir borð.