Jón Helgason:
    Hæstv. forseti. 1. flm. þessarar till., hv. 6. þm. Vesturl., gerði skýra grein fyrir þeim rökum sem að baki hennar liggja og er ekki ástæða til að endurtaka þau. Að sjálfsögðu þarf að gæta þess við framkvæmd þessa máls að það verði ekki lagt þannig út að hér sé verið að loka landinu eða hindra komu þeirra. Fyrst og fremst eigum við að reyna að leggja áherslu á að koma sem mest til móts við þarfir þeirra sem hingað vilja leggja leið sína með því að kynna landið. En á sama hátt og við viljum að það sé gert af hálfu Íslendinga sjálfra sem þekkja landið, hafa tilfinningu fyrir landinu, þá vildi ég nota þetta tækifæri að undirstrika að þeir sem skipuleggja ferðir hér um landið þurfa að huga að því að leiðsögumenn hafi staðbundna þekkingu á hverjum stað og slík þekking sé nýtt eins og kostur er til þess að kynna landið og það sé ekki horft á það úr of mikilli fjarlægð. Að sjálfsögðu er lögð áhersla á að mennta sem best þá sem fá réttindi til leiðsögustarfa og bókalærdómur er að sjálfsögðu góður, en við megum ekki gleyma því hversu tilfinning og staðbundin þekking skiptir þarna miklu máli.
    Þetta viðhorf finnst mér að þurfi reyndar að ríkja á öllum sviðum ferðaþjónustunnar og þurfi að hafa betur í huga í sambandi við skipulagningu hennar á komandi árum. Ég ætla ekki að orðlengja það frekar en vildi víkja sérstaklega að þessu atriði.