Útreikningur þjóðhagsstærða
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Flm. (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurskoðun á útreikningi þjóðhagsstærða sem er á þskj. 146. Flm. þessarar till. eru allar þingkonur Kvennalistans. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta endurskoða grundvöll fyrir útreikningi þjóðhagsstærða með hliðsjón af áhrifum framleiðslustarfsemi og annarra mannlegra athafna á umhverfi og náttúrlegar auðlindir.``
    Umhverfismálin og hættuboðar sem þeim tengjast eru nú loks viðurkennd af stjórnmálamönnum víða um lönd. Þannig hittast nú varla forustumenn þjóða svo að þeir greini ekki frá því að umhverfismálin hafi verið eitt helsta umræðuefni þeirra. Þessu ber vissulega að fagna því að orð eru til alls fyrst.
    Ætli menn hins vegar í raun að glíma við umhverfisvandann og tryggja lífvænlega þróun þarf að taka á öllum viðkomandi þáttum. Þar skiptir efnahagsstarfsemin hvað mestu máli en til að fella hana að hinum nýju viðhorfum verður að leiðrétta mælistikurnar. Hagfræðimælingar sem víðast hvar er beitt til að leggja mat á efnahagsþróun eru úreltar og ófullnægjandi þar eð þær taka aðallega mið af skammtímahagsmunum en sniðganga nýja sýn til umhverfismála. Í þeim aðferðum sem mest er byggt á við ákvarðanir í efnahagsmálum hér á landi sem annars staðar er ekki tekið tillit til þeirra hættumerkja sem hrannast upp vegna spillingar á umhverfi og eyðingar náttúrlegra auðlinda. Þannig er í útreikningum á helstu þjóðhagsstærðum ekki höfð hliðsjón af áhrifum framleiðslustarfsemi á náttúrlegar auðlindir né heldur náttúrlegum breytingum eða áhrifum af hamförum. Verðmæti auðlindanna er
ekki fært til eignar og ekkert kemur fram um það í hagtölum á hverjum tíma hvort gengið sé á þessar náttúrlegu innistæður. Þjóð sem ofveiðir fiskistofna, ofnýtir gróðurlendi og mengar umhverfi sitt verður ekki fátækari samkvæmt hefðbundnum efnahagsútreikningum. Hún getur þvert á móti skarað fram úr tímabundið á mælikvarða Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD og Alþjóðabankans, allt þar til náttúran grípur fram í fyrir tölvuforritum hagfræðinganna.
    Á árinu 1989 gaf Efnahags- og framfarastofnunin OECD út rit sem fjallar um umhverfi og efnahagsmál og hvernig hugsanlega megi leggja efnahagslegt mat á ýmsa þætti umhverfismála sem hingað til hafa oftast verið skildir út undan við útreikning ýmissa stærða sem notaðar eru til að leggja mat á hagkvæmni og arðsemi. Bæklingurinn heitir á ensku, ef ég má leyfa mér að nota það, Environmental policy benefits: monitory evaluation. Það má kannski reyna að þýða það með: Fjárhagslegt mat á ávinningi umhverfismálastefnu.
    Í bæklingnum er m.a. fjallað um nokkrar hugmyndir um hugtak sem nefna mætti heildarhaggildi sem þýðingu á ensku orðunum ,,total economic value``. Þetta hugtak gegnir lykilhlutverki þegar reynt er að

meta gildi náttúruumhverfis og manngerðs umhverfis af því að það tekur líka mið af verðmætum sem skapast í gegnum umhverfisvernd og umhverfisrækt.
    Kjarni hugmyndarinnar er að til séu tvenns konar verðmæti, notagildi hluta og eigið gildi þeirra. Hingað til hefur nær eingöngu verið lögð áhersla á fyrra atriðið sem snýst um þau not sem hægt er að hafa af umhverfi og náttúruauðlindum. Hins vegar nær eigið gildi til mats okkar á umhverfinu, dýralífinu o.s.frv. sem við höfum engin sérhæfð not af. Menn eru ekki sammála um hvað telja eigi til eigin gildis og hvað ekki. Erfitt getur verið að meta hvaða gagn mætti hafa af umhverfinu. Hægt er að njóta þess í gegnum bækur, kvikmyndir, fyrirlestra eða aðra óbeina notkun. Þessi óbeina notkun getur verið þó nokkuð mikilvæg og greinilegt virðist að verðmætin sem um er að ræða hafa gildi vegna þessarar óbeinu notkunar.
    Mjög margir meta ákveðin verðmæti í umhverfi sínu, sérstaklega villt dýralíf og náttúrlegt umhverfi þess, jafnvel þótt þeir búist sjálfir aldrei við að berja þau augum. Menn geta óskað þess að geyma þessi verðmæti handa ókomnum kynslóðum. En það er ekki bara mannkynið sem augu manna beinast að. Við höfum líka skyldur gagnvart öðrum lifandi verum vegna þess hve varnarlausar þær hafa orðið í gegnum tíðina gagnvart ásælni mannskepnunnar. Slík ábyrgðartilfinning er þáttur í varðveislu náttúrlegs umhverfis sem margir eru, sem betur fer, tilbúnir til að borga fyrir. Það er í raun verið að meta gildi dýrategundar í hættu henni í hag.
    Ýmsir fleiri þættir koma inn í slíkt mat og vil ég hér nefna einn þátt enn, en það er löngunin til að meta umhverfisverðmæti til rannsókna í framtíðinni. Þetta á við tilfelli þar sem um óendurnýjanleg náttúruverðmæti er að ræða og mat manna er að hætta þurfi við eða fresta ákvörðun um eyðileggingu verðmæta meðan fengnar eru frekari upplýsingar með rannsóknum. Til að hægt sé að taka umhverfisþætti inn í þjóðhagsstærðir þurfa hagfræðingar m.a. að meta neikvæð áhrif mengunar og afleiðingar ofnýtingar og mengunaróhappa. Það eru brýnustu verkefnin en mat á þeim þáttum sem ég nefndi áðan er einnig nauðsynlegt. Þetta getur verið ýmsum erfiðleikum háð en þeim mun brýnna er að byrja að þróa aðferðir sem skilað geta árangri.
    Varðandi ýmsa þætti kann að vera erfitt að koma við beinum talnagildum t.d. þegar meta á hvers virði hreint vatn og ómengað loft er. Mörgum spurningum verður sjálfsagt seint svarað svo að óyggjandi sé. Hvernig á t.d. að meta þætti sem eru í raun óbætanlegir og ekkert getur komið í staðinn fyrir? Hvaða verð á að setja á ósonlagið eða regnskóga Amasonsvæðisins? Þetta kann að virðast snúið en þó verður að gefa því ákveðin gildi. Í hefðbundnum aðferðum við útreikning á hagvexti og öðrum þjóðhagsstærðum gætir blindu gagnvart umhverfinu. Ekkert tillit er tekið til þess hvort gengið er á höfuðstól náttúrlegra auðlinda og mengandi starfsemi og sóun takmarkaðra gæða birtist okkur í auknum hagvexti. Fyrir þjóðir sem byggja mikið á framleiðslu

og náttúrlegum auðlindum eru slíkir mælikvarðar sérstaklega illa til þess fallnir að gefa raunsanna mynd af afleiðingum efnahagsstarfseminnar að ekki sé talað um framtíðarhag. Það er raunar alveg furðulegt að útreikningar og mat á þjóðarframleiðslu skuli ekki ná til þess hvað gerist í efnahag landsins þegar náttúruauðlind er fullnýtt eða upp urin.
    Nú berast þau tíðindi utan úr heimi að þeim sem séð hafa um að reikna út þjóðhagsstærðir sé í æ ríkara mæli að skiljast að dæmið gengur ekki upp. Öllum hlýtur að vera ljóst að það gengur ekki að litið skuli á mengun og ofnýtingu sem jákvæða þætti þegar verið er að meta framfarir á efnahagssviðinu. Kostnaður við að hreinsa upp olíu úr sjó og vötnum reiknast sem aukinn hagvöxtur.
    Við höfum nýlega heyrt dæmi um alvarleg olíumengunarslys. Á síðasta ári urðu slys við Alaskastrendur og seinni part ársins einnig út af strönd Marokkó og nú alveg nýlega var sagt frá mikilli olíumengun í nágrenni Madeira. Það fé sem fer í að hreinsa upp olíuna reiknast sem aukin þjóðarframleiðsla og þar með aukinn hagvöxtur en tap á verðmætum náttúrunnar er hvergi tekið inn í dæmið. Í mörgum tilfellum er jafnvel hægt að segja að um eins konar tvítalningu sé að ræða. Við getum tekið dæmi hér hjá okkur:
    Aukin notkun á einnota umbúðum reiknast sem aukin þjóðarframleiðsla. Kostnaður við að hreinsa umhverfið af einnota umbúðum og eyða þeim reiknast einnig sem aukin þjóðarframleiðsla. Aukin mengun og spilling reiknast ekki inn í dæmið. Ekkert tillit er tekið til þess þegar meta á hve vel þjóðinni vegnar á efnahagssviðinu þótt gengið sé á þann höfuðstól sem er grunnur að efnahag landsins, náttúruauðlindirnar. Ekkert tillit er tekið til þess að eftir því sem gengið er á auðlindina minnkar það sem hún mun gefa af sér í framtíðinni.
    Nokkrar þjóðir hafa þegar sýnt viðleitni til að meta umhverfisþætti inn í þjóðhagsútreikninga. Þar hafa Norðmenn riðið á vaðið og fleiri þjóðir eru að huga að því sama. Norðmenn byrjuðu að velta fyrir sér auðlindamati fyrir um 15 árum og nú gefur norska hagstofan árlega út yfirlit um ástand náttúrlegra auðlinda og mengun í Noregi. Þær stærðir sem til þessa hafa verið teknar inn í auðlindaútreikninga varða orku, fiskstofna, skóga og loftmengun. Norska umhverfisráðuneytið er nú að meta önnur svið þar sem miklu varðar að tengja saman efnahagslíkön og vistfræðilegar upplýsingar. Hér á landi er helst að finna vísi að slíkum útreikningum við mat á fiskstofnum. Þá vinna Norðmenn einnig að nýju þjóðarauðsmati sem á að endurspegla möguleika á hagnýtingu í framtíðinni í víðu samhengi. Reynt er að svara því hvers konar vöxtur sé æskilegur og lögð áhersla á að efnahagsstarfsemin hafi ekki í för með sér óhóflegt álag á umhverfið.
    Það er löngu orðið tímabært að taka upp nýjan grundvöll við útreikning þjóðhagsstærða hér á landi. Eins og ég nefndi áðan fer fram mat á stærð fiskstofna hér við land hjá Hafrannsóknastofnun. Það

ætti því að vera tiltölulega auðvelt að meta verðmæti þeirrar auðlindar. Mat á verðmætum annarra auðlinda getur e.t.v. orðið flóknara en þó ekki svo að það ætti vel að vera framkvæmanlegt. Sjálfsagt er að byggja á þeim aðferðum sem notaðar eru annars staðar við svipaða útreikninga. Mengun og spillingu umhverfis á að sjálfsögðu að meta inn í þjóðhagsstærðir sem neikvæða þætti en ekki jákvæða eins og nú er gert.
    Tillaga sú sem hér er flutt gerir ráð fyrir að stjórnvöld láti endurskoða grundvöll fyrir útreikningi þjóðhagsstærða með hliðsjón af ofangreindum viðhorfum. Í tengslum við það er ástæða til að leggja grunn að nýju þjóðarauðsmati og gagnaöflun um ástand og nýtingu auðlinda á hverjum tíma. Þar er um að ræða verðugt verkefni fyrir nýtt umhverfisráðuneyti í samvinnu við rannsókna- og hagfræðistofnanir. Miklu skiptir að hagfræðingar og aðrir sérfræðingar leggi sig fram um að laga störf sín og fræði að breyttum viðhorfum og að góð samvinna takist milli þeirra mörgu sem leggja þurfa grunn að því að tryggja lífvænlega þróun.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og til félmn.