Orkuskattur og kjarasamningar
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég er þakklátur hæstv. forseta deildarinnar fyrir að hafa gert tilraun til að ná því fram að umræður gætu orðið í dag um frv. ríkisstjórnarinnar um skattskyldu orkufyrirtækja. Þetta mál var til umræðu á þriðjudegi fyrir viku og var þá hæstv. fjmrh. mjög í mun að þetta fyrirtæki næði fram að ganga þar sem hann taldi það mikið grundvallaratriði í stefnu sinnar ríkisstjórnar að ná fram skattlagningu sem nú er komið fram að veldur um 30% hækkun á rafmagnstöxtum heimilanna og hefur í för með sér samsvarandi hækkun á hitaveitum landsmanna. Það er eftirtektarvert að hæstv. ríkisstjórn skuli vera að beita sér fyrir slíkri hækkun á nauðþurftum almennings á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins eru að reyna að ná því fram að samningar takist án þess að nokkrar launahækkanir verði í raun og veru hjá fólkinu í landinu sem er talið óhjákvæmilegt vegna þess erfiða atvinnuástands sem við Íslendingar eigum nú við að búa þrátt fyrir þá miklu skerðingu á lífskjörum sem orðið hefur síðan þessi ríkisstjórn kom til valda.
    Ég taldi nauðsynlegt sl. þriðjudag, hæstv. forseti, að hæstv. iðnrh. Jóni Sigurðssyni gæfist kostur á því að vera viðstaddur umræðuna vegna þess að ég þekki svo til hans að ég veit að hann hefur lagt sitt af mörkum til þess að frv. um skattlagningu orkufyrirtækja gæti orðið þannig að það skilaði ríkissjóði því sem ríkissjóður ætlaði sér að fá. Ég veit að hann samþykkir ekki í ríkisstjórn frv. sem svo snertir hans eigið ráðherraembætti án þess að setja sig rækilega inn í það.
    Ég taldi nauðsynlegt, hæstv. forseti, að hæstv. iðnrh. yrði viðstaddur líka vegna þess að nú er komið fram að borgarfulltrúi Alþfl. í Reykjavík er fullkomlega andvígur þessari miklu skattheimtu sem lýsir sér í frv. Því miður er það svo að hæstv. ráðherra getur ekki verið viðstaddur þessa umræðu í dag heldur er hann á fundum vegna þeirra kjarasamninga sem nú er verið að vinna að. Ég vænti þess að aðilar vinnumarkaðarins geri það að skilyrði að ríkisstjórnin falli frá þessari skattheimtu og annarri þeirri nýrri skattheimtu sem nú er fyrirhuguð og er til þess fallin að skerða launakjör landsmanna og hækka verðlag í landinu.
    Hæstv. forseti. Ég vil líka vekja athygli á því að einstakir ráðherrar hafa boðað annir í fjh.- og viðskn. Eigi að síður hefur formaður fjh.- og viðskn. ekki séð ástæðu til þess að kalla nefndina saman eftir áramót ugglaust vegna þess að nefndin hefur ekki annað en frumvörp stjórnarandstæðinga til meðferðar. Ég hafði þó loforð um það að fyrir því yrði greitt að þau mættu koma hér á dagskrá í deildinni. Ég hygg að formaður fjh.- og viðskn. sé ekki lengur í deildinni og vil þess vegna beina því til hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því að nefndarstörf geti verið með eðlilegum hætti á meðan stjórnarandstaðan á mál í nefndum sem þurfa vinnu og afgreiðslu við.