Laun forseta Íslands
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá allshn. um frv. til laga um laun forseta Íslands.
    Í þessu frv. felst að gert er ráð fyrir að sameina í ein lög gildandi lög um laun forseta Íslands, nr. 3 frá 6. mars 1964, og lög nr. 26 frá 2. maí 1969, um eftirlaun forseta Íslands.
    Meginatriði þessara laga beggja eru sameinuð í þessu frv. með örfáum undantekningum. Þær eru í fyrsta lagi að fellt er niður það skilyrði um eftirlaun forseta Íslands að forseti skuli hafa náð 65 ára aldri eða vera öryrki þegar hann lætur af störfum.
    Í öðru lagi er sú breyting að þar sem fjallað er um eftirlaun ekkju forseta er því breytt í eftirlifandi maka.
    Það er mat allshn. að hér sé um eðlilegar og sjálfsagðar breytingar að ræða og leggur hún því til að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir nál. rita allir nefndarmenn.