Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Meðflm. með frsm. eru Salome Þorkelsdóttir, Eyjólfur Konráð Jónsson og Halldór Blöndal.
    Í frv. segir svo í 1. gr.:
    ,,Við 81. gr. laganna bætist svohljóðandi málsgrein:
    Eignarskatt af íbúðareign einstaklinga skal reikna með sama frádrætti og af eign hjóna. Eignarskattur af íbúðareign barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, skal reiknaður með sama hætti.``
    Þegar lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, voru samþykkt á sínum tíma fólu þau í sér ýmsar breytingar frá því sem áður hafði verið. Miklar umræður höfðu orðið um misræmi á tekjuskatti einstaklinga og hjóna þar sem hjón höfðu ekki haft sömu möguleika á frádrætti vegna tekjuskattsálagningar og einstaklingar. Með lögunum var þessi munur á tekjuskattsgreiðslum hjóna og einstaklinga jafnaður að mestu.
    Jafnframt var gerð breyting á álagningu eignarskatts sem olli því að óþolandi misræmi varð á greiðslum hjóna og einstaklinga sem áttu sambærilegar skattskyldar eignir. Tekin var upp sú álagningarregla að í stað þess að miða skattlagningu á eign við verðmæti eignarinnar eða skattgjaldseign var fundinn sérstakur eignarskattsstofn fyrir hjón með því að leggja saman allar eignir þeirra og deila þeim til helminga áður en eignarskatturinn var lagður á. Þannig varð eignarskattsstofn hjóna helmingi lægri en eignarskattsstofn einstaklinga. Hefur þetta vafalaust orðið fyrir áhrif af umræðunni um jöfnun tekjuskatts milli hjóna og einstaklinga. Breyting þessi vakti ekki athygli þá því að eignarskattur var aðeins 0,3% og 0,6% eftir fyrstu þrjár milljónirnar. En hin gífurlega hækkun á eignarskatti, sem á var lagður á árinu 1989, varð til þess að gjaldendur áttuðu sig á þeim óþolandi mismun sem er á skattlagningu á eign hjóna og einstaklinga.
    Með framlagðri breytingartillögu er nú reynt að jafna þennan aðstöðumun að því er varðar íbúðarhúsnæði, en takmarkið er auðvitað að afnema skattlagningu á eignir, en um þá margsköttun og eignaupptöku ætla ég ekki að fjalla nú.
    Gífurlegt ranglæti ríkir í skattlagningu eigna með hliðsjón af skattalegri stöðu einstaklings. Eins og dæmi í fylgiskjali með þessu frv. sýna greiðir einstaklingur rúmlega helmingi hærri eignarskatt en hjón samkvæmt gildandi skattalögum af sambærilegri eign. Þótt færa megi gild rök fyrir því að skattleggja skuli sameiginlegar eignir hjóna með þeim hætti að eignarskattsstofni skuli skipt að jöfnu milli þeirra og reikna síðan eignarskatt af hvorum helmingi fyrir sig breytir það ekki þeirri staðreynd að í núverandi fyrirkomulagi felst mikið ranglæti gagnvart einstaklingum, sérstaklega með tilliti til ákveðinna eignarforma, eins og t.d. í sambandi við íbúðareign sem viðkomandi hefur til eigin afnota. Það er

gjörsamlega óviðunandi að einstaklingar skuli búa við það skattalega ranglæti sem felst í gildandi lögum, ekki hvað síst þegar haft er í huga að heildartekjur einstaklings eru í flestum tilfellum mun lægri en sameiginlegar tekjur hjóna. Þá ber að hafa í huga að í íslensku nútímaþjóðfélagi munu um 70-80% kvenna vera útivinnandi. Greiðslustaða einstaklings til að mæta háum eignarsköttum er því mun lakari en núverandi álagningarreglur bjóða upp á. Þessi íþyngjandi mismunur kemur einkar skýrt í ljós við þá skattaníðslustefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur hrint í framkvæmd.
    Þetta frumvarp felur í sér skattalega leiðréttingu á álagningu eignarskatts á húsnæðis- og íbúðareign einstaklinga sem er orðið brýnt mál til að tryggja eðlilega réttarstöðu þeirra þúsunda einstaklinga sem hafa orðið fyrir barðinu á því óréttlæti er ríkir í þessum efnum.
    Áhrif þessa frumvarps, verði það að lögum, hefur það m.a. í för með sér að í stað þess að greiða á sl. ári á grundvelli gildandi laga 135 þús. kr. af skuldlausri íbúðareign að verðmæti 10 millj. kr. mundi viðkomandi einstaklingur hafa greitt 60 þús. kr. eða hið sama og hjón. Ef frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, en það er 106. mál sem Geir H. Haarde og fleiri þm. Sjálfstfl. hafa lagt fram í Nd. yrði samþykkt, þá gæti dæmið litið út sem hér segir:
    Álagning eignarskatts skv. gildandi lögum vegna ársins 1989 á skuldlausa eign upp á 10 millj. kr.: Hjá einstaklingi 135 þús. kr., hjónum 60 þús. kr. Skv. lögum sem giltu fyrir árið 1988, skuldlaus eign 10 millj.: einstaklingur 57 þús. 21 kr., hjón 38 þús. 43 kr. Með þessu frv., virðulegi forseti, er fskj. sem sýnir fleiri dæmi um skattlagningu miðað við mismunandi nettóeign og vísast til þess.
    Það er óþarft að fjölyrða frekar um það mikla ranglæti sem felst í gildandi lögum um skattlagningu eigna. Í þessum efnum hefur ekki ríkt jafnrétti milli þegnanna og er vafamál hvort sá háttur sem hefur tíðkast í þessum efnum brjóti ekki í bága við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands um jafna stöðu þegnanna í skattalegu tilliti hvað varðar eigna- og tekjugrundvöll.
    Ég mun ekki fjölyrða frekar um þetta frv. né rök með því. Ég vil, virðulegi forseti, leggja til að að lokinni umræðu verði því vísað til fjh.- og viðskn. deildarinnar.