Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Þetta frv. tekur á raunverulegum vanda margra einstaklinga, þeirra sem búa einir, og er Kvennalistinn sammála því að á þessu máli þurfi að taka. Við lögðum reyndar fram tillögur okkar til að mæta þessum vanda þegar umræða um breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fór fram fyrir áramótin. Þær eru að sumu leyti líkar því sem hér er verið að ræða. Okkur fannst að misræmis eða óréttlætis gætti í því að einstaklingar og einstæðir foreldrar skuli ævinlega reiknaðir aðeins hálft ígildi hjóna. Þó að eðli málsins samkvæmt sé venjulega einum fleira í heimili þar sem hjón eru eða sambýlisfólk er kostnaðurinn við að reka heimilið oft og tíðum nærri því jafnmikill fyrir einstakling. Ýmis útbúnaður í sambandi við stofnun heimilis er dýr og er hann jafndýr hvort sem um hjón eða einstakling er að ræða og oft ekki hægt að helminga þann kostnað. Þess vegna lögðum við til að einstaklingur eða einstætt foreldri sé 60% ígildi hjóna í samanlögðum eignarskattsstofni þeirra.
    Þannig þótti okkur réttlátt að mæta þessum vanda en á því eru auðvitað ýmsar aðrar hliðar. Hv. frsm. hefur einmitt kynnt okkur þær hugmyndir sem liggja til grundvallar þeirri lausn sem hann leggur til ásamt meðflm. sínum. Verður áhugavert að fjalla um þetta mál í hv. fjh.- og viðskn. þar sem ég reikna með að það fái meðferð.
    Auðvitað gildir það sama og ekki síður um börn undir 16 ára aldri sem þarna er tekið tillit til. Get ég fúslega tekið undir þá hugmynd að geta þess sérstaklega í frv. hv. frsm. og hans meðflm.
    Ég vildi bara lýsa yfir því að við viljum sýna þessu máli stuðning og reyna að leita sameiginlegra úrræða í nefndinni til þess að komast að einhverjum þeim lausnum sem munu duga.