Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Reykv. Guðmundur Ágústsson, sem er formaður fjh.- og viðskn., sagði áðan að þetta frv. mundi fá sína meðferð. Ég hefði vænst þess að þm. Borgfl. hér í þessari deild hefðu staðið upp með meiri reisn en þessari, ég hefði vænst þess að hv. þm. þessa flokks hefðu staðið upp og sagt: Við styðjum þetta frv. Ég vænti þess að hv. þm. standi hér upp og gefi slíka yfirlýsingu.
    Það atriði, að senda þurfi þetta til umsagnar, er hinn mesti misskilningur. Hverjum á að senda frv. sem þetta til umsagnar? Virðulegi forseti, ef menn lesa frv. og hafa skattalögin við höndina eða menn lesa grg. og kynna sér fskj., þá er svo augljóst hvað hér er á ferðinni. Hér er á ferðinni frv. sem felur í sér jafnrétti í skattlagningu. Þetta er frv. sem snýr að einstaklingum og er svo augljóst að ekki þarf að senda það til umsagnar út í bæ nema því aðeins að hv. þm. vilji senda þetta frv. út í bæ til að tefja fyrir framgangi málsins. Hins vegar get ég upplýst hv. þm. um það, að lítt athuguðu máli en þó nokkuð, að þetta frv. gæti hugsanlega haft þau áhrif á ríkissjóð að það mundi muna svona 200 millj. kr.
    Nú er skýrt frá því í dagblöðum að hæstv. ríkisstjórn ætli að láta alþýðuna, fólkið sem greiðir 10% af launum sínum í lífeyrissjóðina, lána sér fjóra milljarða til þess að geta sagt: Við, handhafar ríkisvaldsins, leystum samningana með því að auka niðurgreiðslur, með því að gera þetta og hitt, til þess að fólkið geti samið á lágu nótunum. Þess vegna get ég ekki ímyndað mér að það vefjist fyrir þessum hæstv. ráðherrum, né hv. þm. Guðmundi Ágústssyni, að taka þessar 200 millj. kr. með í pakkanum og drífa þetta frv. í gegn sem fyrst. Það vill nefnilega þannig til, hv. þm., að menn þurfa ekki að vera ráðherrar, menn þurfa ekki að njóta þess að geta ráðið sérfræðinga til að skoða íslenskt þjóðfélag til að gera sér grein fyrir því hvernig það er. Sem betur fer eru nú ekki allir þannig að þegar þeir verða ráðherrar þurfi þeir að ráða til sín 4--5 sérfræðinga til að skoða umhverfið. Við erum sjáandi sem betur fer, margir í þessu þjóðfélagi, án sérfræðiaðstoðar. Það þarf enga spekinga né athuganir eða umsagnir til að sjá að fjöldi einstæðra úti á vinnumarkaðinum, sem eiga íbúðir með þeim hætti að þeir lenda í þeirri skattlagningu sem þetta frv. vill leiðrétta, þetta kemur svo víða niður, að það er einfalt mál fyrir hv. alþm. að ganga frá þessu frv. án að leita of mikið eftir umsögnum sem mundu hugsanlega tefja málið. Þess vegna vænti ég þess að hv. þm. Guðmundur Ágústsson komi hér upp á eftir og lýsi yfir fullum stuðningi við þetta frv. og einnig lýsi hann því yfir að hann muni efna til fundar í fjh.- og viðskn. til að flýta fyrir afgreiðslu þess.
    En að lokum: Ef hv. þm. flokkar þetta mál undir það sem hann kallaði atlögu gegn þessari ríkisstjórn í þingskapaumræðunni áðan, þegar menn voru að gagnrýna hann og skattastefnu núverandi ríkisstjórnar, atlögu vegna þess að stjórnarandstæðingar komi með

frv. inn á Alþingi, þá hef ég hina mestu samúð með hv. þm. og vona að hann átti sig á því hvað honum ber að gera.