Landsvirkjun
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Flm. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983, sem er á þskj. 470. Meðflm. eru hv. þm. Egill Jónsson, Skúli Alexandersson, Guðmundur Ágústsson og Danfríður Skarphéðinsdóttir.
    Á sl. þingi flutti ég ásamt fleiri hv. þm. till. til þál. um sameiningu Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins og jöfnun raforkuverðs. Markmið þeirrar tillögu var það sama og felst í þessu frv., þ.e. að koma á jöfnun raforkuverðs í landinu. Þeirri tillögu var vísað til nefndar en hún fékk ekki afgreiðslu þar. Við fyrri umræðu tillögunnar í Sþ. og reyndar einnig við umfjöllun um efnið utan þings kom fram andstaða við að sameina þessi tvö stóru fyrirtæki.
    Til þess að halda áfram að vinna að framgangi meginmarkmiðsins um jöfnun raforkuverðs og komast hjá því að slík sameining yrði að ásteytingarsteini við að ná því fram er nú farin sú leið að flytja frv. til laga um breytingu á 13. gr. laganna um Landsvirkjun. Skv. 1. gr. frv. er kveðið á um að við 1. mgr. hennar skuli bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Þó skal veittur afsláttur af gjaldskránni þeim rafveitum sem vegna strjálbýlis eða annarra óviðráðanlegra ástæðna búa við háan dreifingarkostnað þannig að smásöluverð fyrir hverja tegund afnota verði hvergi meira en 5% hærra en vegið meðaltal á landinu öllu. Sama gildir um raforkuverð til upphitunar þar sem verð á öðrum orkugjöfum reiknast einnig inn í meðaltalið. Iðnaðarráðuneytið setur reglur um þessa verðjöfnun og annast framkvæmd hennar.``
    Hér er lagt til að farin verði sama leið og gert hefur verið síðustu árin með raforku til upphitunar þar sem Landsvirkjun hefur veitt nokkurn afslátt á hverja kwst. og aðferðin því tiltölulega einföld í framkvæmd. Iðnrn. er ætlað að setja reglur og annast framkvæmd á því að meta af hverju verð á raforku hjá þeim rafveitum sem eru með hærra en landsmeðaltal stafar. Meta að hvað miklu leyti það stafar af óviðráðanlegum ytri aðstæðum.
    Þar sem þannig hagar til skal Landsvirkjun veita þeim rafveitum afslátt af heildsöluverði svo að þeim verði kleift að minnka þennan mismun þannig að hann verði ekki meira en 5% frá meðaltalinu. Að sjálfsögðu yrðu þar ekki tekin inn í reikninginn þau útgjöld sem unnt væri með hagræðingu og öðrum aðgerðum að draga úr. Þessi tilhögun kæmi því ekki í veg fyrir að hvert fyrirtæki legði sig fram um að gera reksturinn sem hagkvæmastan.
    Í grg. með frv. er bent á þau skýru og einföldu rök sem eru fyrir því að þessu skipulagi verði komið á. Landsvirkjun hefur einkarétt til raforkuvinnslu hérlendis. Það er eðlilegt að slíkum réttindum fylgi einhverjar skyldur. Í skjóli þeirra laga sem m.a. veita Landsvirkjun þessi réttindi hefur þróunin hins vegar orðið sú að smásöluverð á raforku milli landshluta er mjög misjafnt. Þó að ýmsar ráðstafanir hafi verið gerðar til að draga úr þeim mismun og hann sé nú

minni en stundum hefur verið, þá hafa þær ekki reynst fullnægjandi. Það er algjörlega óviðunandi að fólk sem býr t.d. í nágrenni við orkuverin sem framleiða meginhlutann af allri raforku verði að greiða hærra raforkuverð en mikill meiri hluti þjóðarinnar sem býr þar að auki við ýmsar betri aðstæður á öðrum sviðum. Slíkt ástand minnir á það þegar nýlenduþjóðir fyrri tíma sóttu ódýr hráefni til nýlendna sinna til að standa undir eigin velmegun. Alþingi getur ekki látið slíkt viðgangast lengur.
    Nýlega er komin frá Húsnæðisstofnun ríkisins niðurstaða úr könnun sem hún gerði fyrir hálfu öðru ári um vilja fólks til búferlaflutninga. Þar kemur fram að við óbreyttar aðstæður megi búast við mjög örum flutningum utan af landi á höfuðborgarsvæðið sem hefði í för með sér mjög alvarlega röskun á búsetu í landinu. Um svipað leyti kom út skýrsla frá Byggðastofnun um þann kostnað sem svo örir fólksflutningar hafa í för með sér fyrir byggðarlögin á höfuðborgarsvæðinu sem taka á móti svo miklum fólksfjölda. Kemur sá kostnaður fram bæði í byggingar- og rekstrarkostnaði ýmissa þjónustustofnana fyrir viðkomandi sveitarfélög og beinlínis auknum útgjöldum fyrir íbúana vegna lengri leiða og meiri tíma til að komast milli heimilis og vinnustaðar og annarra nauðsynlegra ferða. Það er því mikilvægt fyrir þjóðfélagið í heild að koma í veg fyrir óeðlilega röskun búsetu. En eitt mikilvægasta atriðið til að vinna að því er að ríkisvaldið jafni þá aðstöðu sem það hefur í hendi sér að gera. Þetta skref sem hér er lagt til vegur þar þungt og hefur líka óbein áhrif þar sem það gefur vísbendingu um að ríkisvaldð vilji halda áfram á þeirri braut.
    Á fundi iðnaðarnefnda Alþingis með forráðamönnum Landsvirkjunar skömmu fyrir jól kom fram að Landsvirkjun væntir þess að geta haldið áfram næstu árin að lækka framleiðslukostnað á raforku og þar með verð í heildsölu. Þess vegna er lagt til í 2. gr. frv. að verðjöfnunin sem kveðið er á um í 1. gr. komi til framkvæmda á næstu árum þannig að lækkandi heildsöluverð frá Landsvirkjun nýtist fyrst og fremst til að lækka smásöluverðið þar sem það er hæst. Þannig
yrði þessi breyting ekki til beinnar raunhækkunar á orkuverði hjá öðrum. Ég vænti þess að sem flestir hv. alþm. sjái að hér er um mjög brýnt sanngirnismál að ræða sem þar að auki er beint eða óbeint hagsmunamál þjóðarinnar allrar.
    Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og iðnn. sem ég veit að mun taka það til ítarlegrar athugunar og afgreiðslu.