Almannatryggingar
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Hv. 1. flm. þess frv. sem hér er til umræðu hefur nú gert mjög ítarlega grein fyrir málavöxtum og málatilbúnaði öllum. Ljóst er og vitað að hér hefur verið um nokkurt ágreiningsmál að ræða.
    Þegar frv. til laga um fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga voru hér til umræðu í þingi og við undirbúning þeirra hygg ég að meginhugsunin hafi verið sú að jafna rétt kvenna vegna þess að aðstæður þeirra voru mjög mismunandi eftir vinnuveitendum og eftir því hvernig samningum viðkomandi stéttarfélög höfðu náð við sína vinnuveitendur. Ekki geri ég lítið úr því og tek undir það með hv. 1. flm. að þetta er mál sem snertir mjög rétt kvenna og kannski meira en karla, eins og flm. rakti vel eftir að hafa vitnað til svars sem ég gaf hér fyrr í vetur um greiðslur samkvæmt þessum lögum til foreldra. Hér er hins vegar ekki um jafnræðismál að ræða að því leytinu til að verði þetta frv. að lögum er ljóst að þær konur sem hærri launin hafa fá miklu betri afgreiðslu sinna mála en þær konur, eða þau foreldri sem vinna við lægra launuð störf. Lögin á sínum tíma áttu að vera til þess að bæta rétt þess fólks. En ég get tekið undir það með hv. 1. flm. og öðrum flm. þessa frv. að nauðsynlegt er að setja um þetta skýrari lagaákvæði svo að þau ágreiningsefni sem uppi hafa verið um túlkun þurfi ekki lengur að vefjast fyrir mönnum.
    Nú er að störfum nefnd sem er að athuga þessi mál sérstaklega og ég óska eftir því við hv. Alþingi og þá nefnd sem tekur þetta mál til umfjöllunar, hv. heilbr.- og trn. deildarinnar, að hafa í huga hvað verið er að gera í málinu.
    Mig langar til, í framhaldi af því sem rætt hefur verið um afstöðu ráðuneytis annars vegar og afstöðu Tryggingastofnunar og tryggingaráðs hins vegar, að lesa bókun þá sem samþykkt var á tryggingaráðsfundi 26. jan. sl. Að vísu var ekki full samstaða um þessa bókun svo að hún hlaut ekki atkvæði allra tryggingaráðsmanna, en var þó samþykkt með meiri hluta og lýsir afstöðu til málsins á þessu stigi. Þar koma fram efasemdir einstakra tryggingaráðsmanna um þá tilhögun sem nú er viðhöfð en hins vegar er lýst yfir því áliti að ekki sé rétt að breyta þeim vinnubrögðum og þeim aðferðum sem tryggingaráð og Tryggingastofnun hefur haft við uppgjör á þessum greiðslum, fæðingarstyrk og fæðingardagpeningum, meðan mál séu í þeirri athugun og þeirri vinnslu sem þau eru nú af hálfu ráðuneytis og í fullu samkomulagi og samráði við aðila vinnumarkaðarins.
    Í þessari bókun segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Tryggingaráð telur að eins og málum nú horfir sé ekki tímabært að það breyti starfsreglum Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarorlofs sem verið hafa við lýði um árabil. Ástæður þær er umsækjandi ber við máli sínu til stuðnings taka ekki af allan vafa um hvernig hátta beri fæðingarorlofsgreiðslum og ný túlkun laganna yrði ekki síður vafamál en núgildandi túlkun. Því er synjað

erindi umsækjanda um fæðingarorlof.
    Tvö sjónarmið hafa einkum verið ríkjandi um með hvaða hætti greiða skuli fæðingarorlof. Annaðhvort ber öllum konum sama greiðsla án tillits til fyrri tekna eða þá að upphæð fæðingarorlofs taki mið af launum konu fyrir barnsburð og þar með samningsstöðu hennar á vinnumarkaði.
    Seinna tilvikið þótti fela í sér þá áhættu að konum yrði enn frekar mismunað á vinnumarkaði og hinn aukni kostnaður vinnuveitanda vegna barnsburðar konu í hans þjónustu yrði til að fæla vinnuveitendur frá því að ráða konur til starfa.
    Í ljósi reynslunnar hallast tryggingaráð að þeirri skoðun að í reynd sé óeðlilegt með öllu að löggjafinn eða tryggingaráð sem túlkandi laganna sé að hafa afskipti af því hvað um er samið á almennum vinnumarkaði. Greiðslur þær sem Tryggingastofnuninni ber að inna af hendi samkvæmt almannatryggingalögum ættu einungis að vera þær sömu vegna fæðingarorlofs allra kvenna og væri á margan hátt heppilegra ef þær rynnu beint til vinnuveitanda sem síðan greiddi konu í fæðingarorlofi þau laun er henni bæri samkvæmt kjarasamningi. Yrði það til þess að síður slitnaði samfella í áunnum réttindum konunnar, t.d. lífeyrissjóði o.þ.h., ef sá háttur yrði á hafður.
    Þrátt fyrir þessa viljayfirlýsingu tryggingaráðs nú ber til þess að líta að sú tilhögun fæðingarorlofsgreiðslna sem við hefur verið höfð og umsækjandi vill fá hnekkt hefur tíðkast lengi og hvorki samtök launþega né vinnuveitenda hafa gert athugasemd við.
    Ljóst er að breyting á núverandi tilhögun fæðingarorlofsgreiðslna mundi kalla á viðbrögð aðila vinnumarkaðarins. Nægir að minna á að við gerð kjarasamninga í apríl 1989 óskuðu samtök launþega eftir almennri endurskoðun á ákvæðum laga um fæðingarorlof með það að markmiði að konur, hvar sem þær eru í starfi, njóti jafnréttis hvað varðar fæðingarorlof. Nýlega umsamin tilhögun á fæðingarorlofi bankamanna mun m.a. hafa orðið til að ýta við kröfunni um endurskoðun. Til að greiða fyrir kjarasamningum ákvað ríkisstjórnin að nefnd þessi yrði skipuð. Var það gert í október 1989 og er nefndin að störfum. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar heilbr.- og trmrn., Tryggingastofnunar ríkisins, Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins, auk fulltrúa stjórnarflokkanna.
Bankamenn og Samband viðskiptabanka eiga þar áheyrnarfulltrúa. Breytt túlkun tryggingaráðs á lögum um fæðingarorlof nú yrði til að skapa óvissu um þetta nefndarstarf og leiða til verulegra tafa á að niðurstaða fáist í nefndinni. Verði ekki breyting á túlkun tryggingaráðs á lögunum þá gerir vinnuáætlun nefndarinnar ráð fyrir því að fyrstu drög að lagafrv. muni liggja fyrir í byrjun mars. Tryggingaráð vill því beina þeim eindregnu tilmælum til heilbr.- og trmrh. að hann sjái til þess að störfum endurskoðunarnefndarinnar verði hraðað eins og nokkur kostur er og einnig að við þá endurskoðun

sem nú fer fram á almannatryggingalöggjöfinni verði kveðið skýrt að orði um hvernig haga beri fæðingarorlofsgreiðslum í framtíðinni, svo vilji löggjafans í þeim efnum komi ótvírætt í ljós.``
    Þetta er æðilöng bókun, hæstv. forseti, en skýrir og lýsir ástandinu nokkuð og stöðu málsins auk þess sem það kom einnig mjög vel fram í framsöguræðu hv. 1. flm. frv. En mig langar að ítreka það aftur að ég tel nauðsynlegt að við fáum niðurstöður þessa nefndarstarfs áður en Alþingi gerir breytingar hér á og minni á að þetta nefndarstarf hefur verið og er í fullum gangi. Það hafa þegar verið haldnir allmargir fundir í þessari nefnd sem er æðistór og nú er að störfum sérstök vinnunefnd eða undirnefnd í málinu. Samkvæmt upplýsingum formanns nefndarinnar nú í dag, eins og reyndar kom fram í bókuninni, er ákveðið gert ráð fyrir því að í marsmánuði verði nefndarálit fyrirliggjandi og hugsanlega drög að frv. um breytingu á löggjöfinni.
    Það er út af fyrir sig rétt sem fram kom í máli hv. 1. flm. að endurskoðun almannatryggingalaga hefur oft reynst tafsöm og tekið langan tíma. En eins og ég hef áður skýrt frá á þessu þingi er þeirri endurskoðun, sem verið hefur í gangi um nokkurn tíma, að ljúka og ég geri mér vonir um að geta mjög bráðlega lagt það frv. hér fyrir Alþingi.
    Varðandi sjónarmið atvinnurekenda sem hv. 1. flm. nefndi aðeins vil ég leyfa mér að fullyrða að á þessu stigi muni vinnuveitendur óska eftir því að málið fái meðferð í nefnd þeirri sem er að störfum og að ekki verði gerðar á því breytingar fyrr en nefndarálit liggur fyrir, án þess að ég sé nokkuð að gera mér í hugarlund hvert álit vinnuveitenda er á málinu í heild eða hver afstaða þeirra kann að verða til þess nefndarálit og hugsanlegra tillagna um lagabreytingar. En ég hygg að afstaða VSÍ til málsins sé sú að það vilji bíða eftir niðurstöðu úr nefndinni sem nú vinnur að málinu með aðild þeirra.
    Varðandi það sem einnig kom fram um afstöðu einstakra þm. og hæstv. fyrrv. ráðherra til málsins og hvort það hefur lögskýringargildi eða ekki hefði auðvitað verið betra að afstaða hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, fyrrv. heilbr.- og trmrh., hefði komið fram jafnótvírætt og hún gerði á þessu þingi þegar hún mælti fyrir þessu frv. á sínum tíma sem ráðherra málaflokksins. Þess vegna hafa ummæli hv. þm. nú nokkuð annað gildi sem lögskýring en ef svo hefði verið, en um það ætla ég ekki að öðru leyti að deila við lögfræðinga sem túlka meira hvað eru lögskýringar og hvað ekki.
    Það er einnig rétt sem fram kemur í bókun tryggingaráðs og getið er um í grg. með frv. sem hér er til umræðu, að bankamenn hafa samið um aðferð við að greiða viðbótargreiðslu til þeirra einstaklinga sem þiggja fæðingarorlof frá Tryggingastofnuninni með þeim hætti að reyna að komast fram hjá lagatextanum sem fjallar um óskert laun í fæðingarorlofi o.s.frv. sem menn hafa nokkuð notað og e.t.v. greint á um hvernig beri að túlka. Þetta allt saman undirstrikar það að nauðsynlegt er að taka á

málinu. Ég mæli þess vegna ekki gegn frv. sem slíku og er ekki á móti því að það fái umfjöllun hér í þinginu, það tel ég fyllilega eðlilegt. Ég fer hins vegar eindregið fram á það að beðið verði eftir þessu nefndaráliti sem ég vona að verði til í marsmánuði og að þingið taki mið af því eða hafi það til hliðsjónar þegar það endanlega afgreiðir málið.