Almannatryggingar
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég kem hér til að taka undir frv. Hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson hefur þegar skýrt afstöðu Kvennalistans til þessa frv. og fæðingarorlofsfrumvarpa hingað til og okkar afstöðu sem fram kemur í þeim frv. sem lögð voru fram hér á Alþingi af þingkonum Kvennalistans. Ég ætla því ekki að tíunda það sérstaklega, heldur langaði mig fyrst og fremst til að ræða það sem kom fram hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. þar sem hann vísar enn einu sinni til þeirrar nefndar sem er að endurskoða almannatryggingalögin. Við erum búin að heyra þetta lengi --- ég held að þetta sé þriðja árið sem ég heyri þetta sagt hér. Svo lengi sem ég hef setið hér er ég búin að heyra að öllum góðum málum sem hér koma fram og varða almannatryggingar skuli fresta eða þau eigi að bíða vegna þess að nú sé endurskoðun alveg að ljúka. Maður er orðinn dálítið þreyttur á að heyra þetta. Nú segir hæstv. ráðherra að von sé á nefndaráliti núna í mars. Ég óska eftir því að hann líti nú á þetta mál sérstaklega, sem eitt lítið mál. Það er ekki þar með sagt að með því sé lýst ánægju með öll lögin um fæðingarorlof þó að þetta eina réttlætismál sé tekið hér út vegna þess að það liggur á að afgreiða það nú. Þess vegna tel ég að ef ráðherra óskar eftir að sú nefnd sem er að störfum nú fái frv. til umsagnar, sé alveg sjálfsagt að hún fjalli um þetta atriði. Þetta er það lítið atriði að það þarf ekki að bíða eftir heildarendurskoðun almannatryggingalaganna þó að þetta atriði verði lagfært.
    Ég gat skilið það af orðum ráðherra, þó að það sé aðeins mín túlkun og ég ætli ekki að fara að leggja honum orð í munn, að hann teldi það ekki réttlætismál að konur héldu sínum launum í fæðingarorlofi. Ég er ekki alveg viss hvort það er rétt mat hjá mér, en ég sjálf tel það mjög mikilvægt að konur haldi launum í fæðingarorlofi. Það má líta á fæðingarorlof sem orlof á sama hátt og litið er á sumarfrí sem orlof. Þegar við förum í sumarfrí þá höldum við okkar launum, þeim launum sem við höfum haft bæði fyrir og eftir sumarfríið. Við lækkum ekki í launum í sumarfríum. Við förum heldur ekki öll á sömu laun þó að við förum í sumarfrí. Konur eru upp til hópa allt of lágt launaðar og fylla þann hóp sem hefur lægstu launin í þjóðfélaginu. Það væri auðvitað mjög mikill akkur í því að hækka laun þeirra almennt og þar með ættu þær líka að fá hærri laun í fæðingarorlofi. Það er hins vegar ekki hægt að vísa til þeirra sem lægstu launin hafa og tala um að einhverjar sem hafa e.t.v. hærri laun, sem eru því miður allt of fáar, eigi þar af leiðandi ekki að fá hærri laun í fæðingarorlofi. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt, og ég vil vísa til þess sem hv. 9. þm. Reykn. Rannveig Guðmundsdóttir sagði hér áðan að allt of margar konur hafa varla ráð á því að eiga börn vegna þess að þær eru á svo lágum launum almennt. Ég skora því á ráðherra að leggja þessu litla máli lið og vísa frekar til þess að þessi nefnd sem er að skoða almannatryggingalögin hljóti nú að vera komin það

langt í sinni endurskoðun að hún geti lagt mat á þetta litla frv. sem hér er sem þó er svo mikilvægt í þessu réttindamáli að konur njóti eðlilegs fæðingarorlofs. Núna er þetta mjög gott skref, í sex mánuði, en að sjálfsögðu verðum við að líta til framtíðarinnar og vinna að því að lengja fæðingarorlof enn frekar.