Fyrirspurn um kennsluefni í íslenskum bókmenntum
Miðvikudaginn 31. janúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Á þskj. 498 er skriflegt svar hæstv. menntmrh. við fyrirspurn. Ég óska eftir að hæstv. menntmrh. hlýði á það sem ég hef að segja um þetta atriði. Ég óska eftir að það sé náð í hæstv. menntmrh. í salinn. Mér skilst að hæstv. forseti hafi verið með athugasemdir í minn garð úr forsetastóli þegar ég var staddur í húsakynnum Alþingis hér fyrir skömmu og ég óska eftir að hæstv. forseti sjái um að ná í menntmrh. þannig að það komi í ljós að hæstv. forseti hefur stjórn á stofnuninni. ( Forseti: Ég bið menn að ná í menntmrh. ef hann er ekki farinn úr húsinu. Venjan er þó að ræða um þingsköp við forseta en ég skal reyna að sjá svo til að hæstv. menntmrh. komi í salinn.) Mér er kunnugt um það, hæstv. forseti, að það er venja að ræða um þingsköp við forseta. Ég hélt líka einu sinni að venja væri, ef búið væri að slíta umræðum um tiltekið mál, að hæstv. forseti tæki ekki upp þann þráð að nýju í tengslum við tiltekinn þingmann og óskaði eftir því að leita atkvæða um það hvort hægt væri að halda áfram umræðum um mál sem væri lokið og blanda þingmanni inn í slíkar málalengingar úr forsetastóli að honum forspurðum og þegar hann er í húsakynnum Alþingis, að hann skuli þá ekki vera látinn vita.
    Ég þakka fyrir að hæstv. menntmrh. skuli koma inn í salinn. Ég hef sagt hæstv. ráðherra frá því að mér finnst það svar sem hefur borist við fsp. minni ófullnægjandi. Ég óskaði eftir skriflegu svari við svohljóðandi fsp.:
    ,,Hvaða íslensk bókmenntaverk voru og verða sett fyrir í grunnskóla og einstökum framhaldsskólum skólaárin 1988--1989 og 1989--1990?
    Óskað er eftir að svarið verði sundurgreint eftir bekkjum.``
    Þessu hefur verið svarað á þskj. 498. Yfirskriftin er svar. En ef þetta svar er lesið kemur í ljós að fsp. er alls ekki svarað. Nú hefur Alþingi leyft að þessi fyrirspurn sé fram borin. Þá lít ég svo á að hæstv. forseti eigi að sjá um að henni sé svarað. Og ég óska eftir því að það verði gert.