Fyrirspurn um kennsluefni í íslenskum bókmenntum
Miðvikudaginn 31. janúar 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Það er nú svo að þegar ég fékk í hendur það svar frá Alþingi sem hér um ræðir og gerði athugasemd var búið að dreifa þskj. þannig að ég var of seinn til. Hitt liggur alveg ljóst fyrir að hæstv. menntmrh. lýsti því yfir í síðustu ræðu sinni að hann sjái ekki ástæðu til að svara fsp. eins og hún er lögð fram í þinginu. Hann talar á þeim nótum að okkur varði í raun og veru ekkert um það hvernig staðið sé að íslenskukennslu í skólum. Þetta er sami maðurinn og fól Máli og menningu að gefa út bókmenntapistil fyrir ríkissjóð sem valdið hefur mikilli hneykslan allra rétthugsandi manna, og ég tala nú ekki um hin aulalegu svör sem einn af skriffinnum menntmrh. gaf í Morgunblaðinu sem voru í senn röng og illa skrifuð. Nú hefur menntmrh. lýst því yfir að Alþingi varði ekki um hvað sé kennt í íslensku. Hann hefur lýst því yfir að það skipti engu máli hvað sé kennt í einstökum framhaldsskólum. Hann hefur gaman af því á hinn bóginn að þykjast hafa áhuga á málrækt og leggja fyrir mikla skýrslu sem verður gaman að ræða nánar um við hann, ef hann má einhvern tíma vera að því að vera við í þingsalnum þegar þetta mál er til umræðu. Þá er óvíst að við tölum á þessum fallegu yfirborðslegu nótum sem talað var um hér áðan með glassúr. Orðakonfekt í hverjum mola.
    Ég held að ástæða sé til þess, hæstv. forseti, að efna til forsetafundar um það hvort það sé sæmandi hinu háa Alþingi að sami þingmaður leggi fram sömu fsp. orðrétt tvisvar sinnum í von um að hæstv. forsetar sjái til þess að henni sé svarað. Það stendur ekkert á mér að endurflytja fsp. ef það má verða til þess að knýja hæstv. menntmrh. til svara. Það stendur heldur ekki á mér að óska eftir því, ef svör forseta verða með þeim hætti, að biðja með þinglegum hætti um skýrslu um það hvernig íslenskukennslu í landinu er háttað og hvernig embættisfærslu hæstv. menntmrh. er háttað ef það má verða til þess að greiða
fyrir þessari umræðu. En hroki, valdahroki af því tagi sem lýsti sér í orðum menntmrh. hér áðan er auðvitað óþolandi með öllu.
    Ég mun, hæstv. forseti, í samræmi við áhuga minn á því að íslenskukennsla megi fara sem best fram í íslenskum skólum, í samræmi við áhuga minn á íslenskum skáldskap og íslenskri ljóðagerð, fylgja því eftir að Alþingi fái upplýsingar um það hvaða bókmenntaverk eru lesin í framhaldsskólum landsins og hvaða bókmenntaverk eru í námsskrá grunnskóla. Alþingi hefur samþykkt að fsp. af þessu tagi sé þinglega fram borin og af þeim sökum ber hæstv. menntmrh. embættisleg skylda til þess að svara umbúðalaust. Og ég tala ekki um að hæstv. forseta ber að sjálfsögðu embættisleg skylda til að sjá um að fsp. sem Alþingi hefur samþykkt fái rétta afgreiðslu.