Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Fyrri spurningin er: Hvað líður athugun á atvinnulífi á umræddum svæðum? Því er að svara eins og fram kom í ræðu fyrirspyrjanda að Byggðastofnun var falið að vinna að athugun á þessum svæðum. Það var gert í ágústmánuði 1988 og hefur Byggðastofnun síðan sinnt því verki og reyndar gefið út skýrslur sem ég er með hér, aðra um Vestur-Skaftafellssýslu sem er frá júní 1989 og hina um Rangárvallasýslu sem er frá des. 1989. Ég hef látið athuga hvernig þessar skýrslur voru unnar og skal reyna að fara yfir það hér í stuttu máli.
    Í fyrsta lagi var ákveðið að skipta verkinu í þrjá hluta og leitast við að fá stuðning heimamanna til að vinna að athugun á hverju svæði fyrir sig. Árni Jón Elíasson, landfræðingur á Kirkjubæjarklaustri, tók að sér að vinna skýrslugerð fyrir svæðið austan Mýrdalssands og hann skilaði sínu verki í júní 1989. Gunnar Bragason, viðskiptafræðingur á Hellu, gerði skýrslu um Rangárvallasýslu. Lauk hann skýrslugerð sinni seint í september 1989 og er skýrsla hans nýútgefin. Sæmundur Runólfsson, verslunarmaður í Vík, var fenginn til þess að gera skýrslu um Mýrdalshrepp en hvarf frá því starfi áður en skýrslu hans var lokið og munu starfsmenn Byggðastofnunar fullgera þann hluta verksins og ljúka honum.
    Þessum skýrslum er það sameiginlegt að lýsa þeim samdrætti sem orðið hefur í undirstöðugreinum viðkomandi héraða. Jafnframt komu fram afleiðingar hans og nauðsyn og þýðing bættra samgangna og annarra þjóðfélagsbreytinga á þjónustustarfsemi í þéttbýlisstöðunum á svæðinu. Það er rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að erfiðlega hefur gengið að byggja upp iðnaðarstarfsemi til mótvægis við samdráttinn. Í þessum verkum og þeim skýrslum sem ég nefndi áðan eru gerðar tillögur um ýmis mál. Ég held að ég megi segja að þær tillögur séu raunsæjar og allar þær upplýsingar sem þar eru dregnar saman afar
mikilvægar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir einhverjum sérstæðum eða sértækum aðgerðum fyrir þetta svæði heldur eru þetta almennar tillögur sem munu verða, og eru, til leiðbeiningar hjá þeim ráðuneytum og stjórnvaldsstofnunum sem að þessum atvinnumálum koma. Ég tel því þessar skýrslur og annað sem þarna er unnið og ég hef rakið lauslega vera mjög mikilvægt í því sambandi.
    Ég mun taka þetta mál upp í ríkisstjórninni og leggja áherslu á að stjórnvöld fylgi í sínum almennu aðgerðum þeim ýmsu skynsamlegu ábendingum sem ekki er tími til að rekja hér en koma fram í þessu verki öllu.
    Hv. fyrirspyrjandi nefndi ýmsar aðgerðir sem gripið hefur verið til í sambandi við útflutnings- og samkeppnisgreinar, sérstaklega í sambandi við sjávarútveg og fiskvinnslu. Það er hárrétt sem mátti greina í orðum hv. fyrirspyrjanda að þetta hefur ekki náð til héraða eins og t.d. Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu þar sem útgerð og fiskvinnsla

er a.m.k. ekki meginatvinnugrein. Suðurlandið hins vegar hefur fengið mikinn hluta af þessu. Ef ég man rétt er skuldbreyting Atvinnuleysistryggingasjóðs á Suðurlandi sú mesta sem nokkurt kjördæmi hefur hlotið. Þar eiga Vestmannaeyjar að sjálfsögðu gífurlega stóran þátt í. Breyting á raungengi sem nemur í tíð þessarar og síðustu ríkisstjórnar yfir 30% hefur skapað nýjar forsendur fyrir samkeppnisgreinar. Auk þess er ríkisstjórnin nú með, á grundvelli þeirra aðstæðna sem nú hafa skapast, í undirbúningi átak á sviðum sem eru að vísu almenns eðlis en kemur þessu svæði væntanlega til góða eins og öðrum. Þar er ekki síst um átak á sviði ferðaþjónustunnar að ræða og er í undirbúningi að samræma starf þeirra stofnana sem að slíku kynningarstarfi vinna. Ríkisstjórnin hefur í huga að veita nokkru af því óráðstöfuðu fjármagni sem hún hefur til þess samræmda átaks á sviði ferðaþjónustunnar.
    Því miður er útilokað að fara ítarlegar út í ýmis þessi mál, eins og væntanlega virkjanir og fleira, sem hafa verið mikilvæg fyrir þetta svæði. Tími til fyrirspurna og svara leyfir það ekki en ég tel að þarna hafi verið unnið mjög mikilvægt starf sem er grundvöllur að átaki á þessu sviði, átaki sem heimamenn ekki síst hljóta sjálfir að leiða í fjölmörgum greinum.