Eggert Haukdal:
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. samþingmanni mínum Guðna Ágústssyni fyrir að bera fram þessa fsp. og forsrh. fyrir svörin. Ég hafði raunar vonað, þar sem hér er mikið alvörumál á ferðinni og sannarlega þörf á að bæta úr atvinnuástandi í þessum héruðum sem fsp. fjallar um, að hv. þm. mundi ekki blanda svona rangri sagnfræði og ýmsu inn í þetta mál um leið og hann var að leita lausna fyrir þessar byggðir.
    Hann minntist hér á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sem tók við 1987 sem öllu hefði komið í strand. Hún tók við eftir að hæstv. núv. forsrh. hafði verið forsrh. í fjögur ár, 1983--1987. Eitthvað hefur þá illa verið skilið við ef skyndilega fór allt í strand 1987--1988. En sjálfstæðismenn og framsóknarmenn stóðu saman í þessum ríkisstjórnum og ég endurtek að vont er til þess að vita ef svona illa hefur gengið 1983--1987 að allt fór á hvolf 1988. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu. Hlutirnir voru ekki alveg eins og hv. þm. sagði en því miður var margt að í tíð þessara stjórna.
    Það er margt að í þeim byggðum sem þessi fsp. fjallar um. Þetta eru einu byggðirnar á landinu sem ekki hafa aðgang að sjó og þess vegna er atvinnulíf þar einhæfara. Samdrátturinn í landbúnaðinum hefur komið mjög við þessi héruð. Enn þá vantar grundvöll undir atvinnureksturinn í landinu sem núv. ríkisstjórn ætlaði að leysa. Hann er ekki enn fyrir hendi. Hæstv. forsrh. sagði raunar um áramót að björgunaraðgerðum væri lokið, allt væri í góðu gengi. Þetta er bara ekki rétt. Það vantar grundvöllinn undir atvinnureksturinn og hann þarf að koma, en þaðan vantar líka hjálp fyrir þessar byggðir vegna einhæfs atvinnulífs og það er meginmálið.