Fyrirspurn um atvinnulíf í Rangárvallasýslu
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Núverandi þingsköp voru samin og samþykkt af Alþingi Íslendinga og m.a. ritskoðuð af hv. 2. þm. Reykn. ( ÓE: Ritskoðuð?) Ritskoðuð. ( ÓE: Hvaða rugl er þetta?) Hvaða rugl. Ég veit ekki betur en að hann hafi lesið þau yfir mjög gaumgæfilega og lagt áherslu á að þau yrðu samþykkt. Svo kemur honum það á óvart að fara eigi eftir þeim. Ég veit ekki betur en að hann hafi verið mjög ánægður með störf þess forseta sem lagði til að þau yrðu samþykkt. Samkvæmt þeim þingsköpum ber hv. 2. þm. Reykn. að bera hér fram fyrirspurnir fyrir ráðherra hafi hann áhuga á að bera fram fyrirspurnir. Honum er aftur á móti ætlað, undir þeim kringumstæðum þar sem hann flutti sína ræðu, að koma með örstuttar athugasemdir, annað er ekki heimilt skv. þingsköpunum. Þetta veit hv. þm.