Fyrirspurn um atvinnulíf í Rangárvallasýslu
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hygg að það væri hollt fyrir hæstv. forseta að kynna sér hin gömlu þingsköp sem hér voru í gildi. Þar var heimilt að standa upp á eftir fyrirspyrjendum og flytja tölu um það mál sem á dagskrá var. Þetta töldu formenn stjórnarflokka á sínum tíma mjög óæskilegt og börðust fyrir þeirri breytingu sem gerð var á þingsköpum og sviptu í raun almenna þingmenn umræðurétti um þær fyrirspurnir sem voru á dagskrá. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Ég greiddi atkvæði gegn þessum þingsköpum á sínum tíma á þeirri forsendu að ég taldi að þau þrengdu of mikið að málfrelsi manna hér í þinginu. Þess vegna liggur það jafnljóst fyrir að ég mun gera þá kröfu til forseta að annað tveggja leggi hann til breytingar á þessum þingsköpum til rýmkunar málfrelsinu ella að hann sjái til þess að reglurnar séu virtar.