Húsameistari ríkisins
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegur forseti. Ég skal snúa mér að því að svara þeim spurningum sem hér eru formlega lagðar fram. Ef tími vinnst til vildi ég gjarnan koma að öðrum atriðum sem komu fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda.
    Það er fyrst hvaða reglur gildi um heimild húsameistara ríkisins til að sinna sams konar störfum fyrir einkaaðila og hann sinnir fyrir ríkið. Þar mun átt við að sinna teiknivinnu, hönnunarvinnu fyrir aðra aðila. Um þetta gilda ekki sérstakar reglur fyrir húsameistara heldur gilda um það almennar reglur sem er að finna í 34. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og ætla ég, með leyfi virðulegs forseta, að lesa það:
    ,,Heimilt er að fela starfsmanni að vinna fyrir sanngjarnt endurgjald aukastörf í þágu ríkisins enda valdi það ekki vanrækslu á þeim störfum er stöðu hans fylgja.`` Þarna eru ítarlegri ákvæði eins og þau að viðkomandi aðili skuli gera ráðuneyti sínu grein fyrir ætlan sinni, að vinna slíkt starf og ráðuneytið hefur að sjálfsögðu heimild til að banna það.
    Ég vildi segja það um húsameistara að þann tíma sem hann hefur verið minn undirmaður hefur hann greint mér frá stærri verkefnum sem hann hefur tekið að sér. Mér er tjáð að þegar hann tók við starfi hafi þáv. hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson heimilað honum að vinna aukastörf, enda eru þau unnin utan þeirrar skrifstofuaðstöðu sem hann hefur og ríkisvaldið á. Hann hefur fullvissað mig um að þau aukastörf sem hann vinnur séu þannig unnin og að hann gæti þess vandlega að blanda ekki saman störfum fyrir stjórnvöld og slíkum einkastörfum. Og af því að sérstaklega var nefnt ákveðið verk, frumhönnun á hóteli fyrir Eimskipafélag Íslands, þá spurði ég hann að því og hann fullvissaði mig um að það væri algjörlega unnið fyrir utan hans vinnu í þágu Stjórnarráðsins. Ég hef því ekki séð ástæðu til að afturkalla þá fyrri heimild sem húsameistari hefur haft.
    Þá var sérstaklega spurt um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Um það er það að segja að samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá varnarmálaskrifstofu utanrrn. hefur húsameistari ríkisins engar greiðslur eða þóknanir fengið persónulega frá byggingarnefnd Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Hann hefur eingöngu þegið þær greiðslur sem hann er með, þ.e. sín föstu laun frá ríkinu, engar aukagreiðslur. Jafnframt er tekið fram í bréfinu frá varnarmáladeild, með leyfi forseta: ,,Tekið skal fram að á tímabilinu 19. sept. 1978 til 10. ágúst 1980 átti húsameistari ríkisins sæti í byggingarnefnd flugstöðvar skv. skipan ráðherra. Hann vék úr nefndinni eftir að embætti hans voru falin bein störf við hönnun byggingarinnar.``
    Ég vil taka fram að ég get ekki tekið undir það sem hv. fyrirspyrjandi sagði um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Rétt er það, hún varð mjög dýr og eflaust miklu dýrari en að var stefnt og hefði mátt byggja hana ódýrari. En ég held að þessi flugstöð muni vinna

sér sess og er að vinna sér sess sem frábært mannvirki. Það er satt að segja ánægjulegt að heyra þau orð af vörum fjölmargra erlendra manna sem hingað koma hvað aðstaðan sé orðin til fyrirmyndar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
    Það er rétt að hún er ekki byggð sem álkassi eins og margar flugstöðvar og hefði vitanlega mátt byggja hana þannig. Hún hefði getað sinnt sínum frumþörfum, svo sannarlega. En þarna var ráðist í að byggja vissulega mjög myndarlegt mannvirki með fallegri hönnun. Ég held ég megi segja að flestir þeir gallar sem komið hafa fram á byggingunni hafi verið að meira eða minna leyti lagfærðir. Byggingin var dýr og stendur ekki enn þá undir sér enda eru miklar afborganir og vextir af þeim lánum sem á henni hvíla. En það mun verða greitt, það eru verulegar tekjur upp í þann kostnað. Vitanlega mætti hugsa sér að lengja þau lán. Þetta er bygging sem stendur til langs tíma. Ég held að menn sem hafa athugasemdir við bygginguna að gera ættu að gera sér ferð suður eftir og skoða hana mjög vandlega. Þá munu þeir sjá að þar er margt mjög athyglisvert og til fyrirmyndar.