Greiðsla kostnaðar á fundaferðum ráðherra
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. forsrh. um reglur um greiðslu kostnaðar á fundaferðum ráðherra á þskj. 507. Fyrirspurnin hljóðar svo:
    ,,Hvaða reglur gilda um greiðslu kostnaðar við almenna stjórnmálafundi og kynningarfundi á vegum einstakra ráðherra í nafni ráðuneyta, þar með talinn auglýsingakostnaður?``
    Að undanförnu hefur færst í vöxt að ráðherrar ferðist um landið í nafni einstakra ráðuneyta. Þetta hefur ekki farið fram hjá neinum þar sem fundirnir hafa verið mjög mikið auglýstir. Það er auðvitað af hinu góða að þingmenn, þar með taldir ráðherrar, kynni sér ástand mála úti um landið með því að ferðast um landið og ræða við fólk. Einnig er sjálfsagt að mínum dómi að ráðuneyti hafi eðlilega upplýsingaskyldu gagnvart almenningi. Ég tel hins vegar óeðlilegt að á vegum ráðuneyta séu haldnir fundir um stórpólitísk ágreiningsmál þar sem sjónarmið ráðherra eru þau einu sem kynnt eru á fundunum. Ég tel þess vegna eðlilegt að fá hér upplýst hvaða reglur gilda um greiðslu kostnaðar í þessu sambandi.