Greiðsla kostnaðar á fundaferðum ráðherra
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Um þennan kostnað gilda ekki neinar sérstakar reglur aðrar en þær sem felast í þeim athugasemdum og umsögnum sem koma frá Ríkisendurskoðun. Um þetta man ég þó að var a.m.k. einu sinni fjallað í fyrri ríkisstjórn sem ég sat í. Það hefur ætíð verið sá skilningur að ef þessir fundir eru til að kynna störf viðkomandi ráðherra og ráðuneytis eða störf ríkisstjórnar sem slíkrar, eru sem sagt á vegum ráðuneytis eða ríkisstjórnar, þá er kostnaðurinn að öllu leyti greiddur af ríkissjóði, þ.e. af viðkomandi ráðuneyti og þeirri fjárveitingu sem viðkomandi ráðuneyti hefur til sinna starfa. Ef ráðherra efnir hins vegar til funda í nafni flokks síns er kostnaður við það að sjálfsögðu greiddur af flokknum eða honum sjálfum eða eftir hverjum þeim öðrum reglum sem þar um gilda á þeim vettvangi. Ferðakostnað hafa ráðherrar hins vegar svipað og þingmenn.