Greiðsla kostnaðar á fundaferðum ráðherra
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans. Ég tel að sjálfsögðu mjög eðlilegt að ráðuneyti kynni sín störf og það sem þar er verið að gera. Ég tel hins vegar mjög varhugavert að í nafni ráðuneyta séu farnar ferðir um landið með þeim ærna tilkostnaði sem þær hljóta oft að hafa í för með sér þegar verið er að kynna málefni sem mjög mikill ágreiningur er um. Þetta hefur komið fyrir og ég get nefnt dæmi þó það séu alls ekki einu dæmin. Ég vil bara nefna sem dæmi að sl. vetur var farin á vegum iðnrn. heilmikil fundaferð til að kynna hugmyndir um nýtt álver. Það er vitað að mjög mikill ágreiningur er um það mál innan ríkisstjórnarinnar og einnig hér á Alþingi. Núna nýlega hafa verið farnar ferðir á vegum utanrrn. varðandi kynningu á umræðum um Evrópubandalagið og EFTA og eftir því sem mér skilst, eingöngu eitt sjónarmið komið þar fram og það er sjónarmið utanrrh. Hann hefur verið sá eini sem talað hefur á fundunum.
    Þetta eru bara einstök dæmi sem mér koma í hug núna. Mér þykir óeðlilegt að eingöngu eitt sjónarmið komi fram þar sem um mjög mikinn ágreining er að ræða. Ég tek hins vegar undir það að mjög eðlilegt sé að kynna málin fyrir fólkinu í landinu. Og eðlilega hefur ríkisstjórnin upplýsingaskyldu. Ég tel eðlilegt að setja ákveðnar reglur þegar um greinilega flokkspólitíska fundi er að ræða og verið er að kynna sjónarmið einstakra flokka en ekki ríkisstjórnarinnar í heild né það sem búið er að ákveða hvað skuli gera á hennar vegum.