Greiðsla kostnaðar á fundaferðum ráðherra
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Ég vil í framhaldi af þessari umræðu vekja athygli á því að yfirskoðunarmenn ríkisreiknings hafa í skýrslu sinni til Alþingis komið með þá ábendingu að eðlilegt sé að setja reglur um ferðalög ráðherra á kostnað ráðuneyta sinna. Hér segir, með leyfi forseta, á bls. 8 í tilvitnaðri skýrslu:
    ,,Oft kann að vera vandasamt að kveða upp úr um hvenær ráðherra er á ferð á vegum embættis síns og hvenær ekki. En eðlilegt er að ferðalög á vegum stjórnmálaflokka, ýmissa samtaka innan lands eða utan, eða einkaaðila greiðist ekki af almennafé. Ástæðulaust er annað en að um þessi efni gildi ákveðnar viðmiðunarreglur svo sem tíðkast í nálægum löndum.``
    Ég vildi koma þessu hér á framfæri í tilefni af þessari fsp. Ég held að öllum sé ljóst, virðulegi forseti, að það er ekkert athugavert við það að ráðherrar séu mikið á ferðinni og ráðuneyti þeirra standi straum af kostnaði við ferðalög á vegum ráðuneytanna. Ég held að það eigi við um ýmsar kynningarferðir sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni.
    En ég vil taka undir það sem forsrh. sagði, að það er ekki eðlilegt að ferðir á vegum stjórnmálaflokkanna innan lands eða utan séu greiddar af almannafé. Forsrh. brást í haust illa við þessari athugasemd yfirskoðunarmanna þegar hann var spurður um hana í fjölmiðlum. Hann var m.a. spurður um ferðir á vegum Framsfl. til útlanda á fundi frjálslyndra flokka og lýsti því yfir að hann hefði haft mjög mikið gagn af þessum ferðum og þess vegna væri eðlilegt að þetta væri greitt af forsrn. Ég efast ekkert um að hann hafi haft gagn af þessum ferðum --- tel reyndar að ýmsir fleiri flokksmenn í Framsfl. hefðu gagn af því að kynna sér sjónarmið í öðrum löndum --- en málið er eftir sem áður það að hér er um að ræða ferðir á vegum flokka sem þeir eiga þá sjálfir að borga. Eða hvað um flokkana sem eru í stjórnarandstöðu á hverjum tíma? Breyttist eðli ferða sem
þessara, t.d. á fundi Alþjóðasambands jafnaðarmanna sem formaður Alþfl. hefur sótt í mörg ár, breyttist eðli þessara ferða eitthvað við það að hann fór úr stjórnarandstöðu í stjórn? Og breyttist þá grundvöllurinn fyrir því hvernig þessar ferðir skyldu greiddar? Auðvitað ekki. Auðvitað eiga að gilda sömu reglur um þetta fyrir stjórnarandstöðuflokka og stjórnarflokka, þ.e. flokkarnir eiga að borga þetta sjálfir þegar svona stendur á. Þessu vildi ég koma hér á framfæri, virðulegi forseti.