Greiðsla kostnaðar á fundaferðum ráðherra
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er greinilegt á þeirri umræðu sem hér fer fram að þörf er á skýrum reglum um slíkar ferðir og tek ég undir nauðsyn þess að slíkar reglur verði settar. Ég tók eftir því í dagblaði um daginn að þar birtist mynd frá einni af fundaferðum hæstv. utanrrh. þar sem hann hélt fyrirlestur um EB-EFTA viðræðurnar yfir nemendum Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hér hefur verið aðeins vikið að því að í slíkum fundaferðum gæti verið viss hætta á einhliða boðskap þar sem jafnvel er verið að kynna sjónarmið eins flokks eingöngu. Nú er það svo að skólar, sérstaklega framhaldsskólar, biðja oft á veturna um flokkakynningu og fá þá fulltrúa allra stjórnmálaflokkanna á sinn fund. Í þessu tilfelli er aðeins verið að kynna eina hlið á málinu. Ég vildi aðeins vekja á þessu athygli og eftir því sem ég best veit var það ekki fyrir beiðni stjórnenda eða nemenda þessa skóla að fundurinn var haldinn.