Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Pálsson):
    Frú forseti. Á lokadegi Alþingis fyrir jólahlé kvaddi einn af talsmönnum ríkisstjórnarflokkanna í utanríkismálum sér hljóðs vegna fréttatilkynningar utanrrn. um afstöðu Íslands til atburðanna sem þá voru að gerast í Panama. Hv. 2. þm. Austurl. tók þá fram af sinni hálfu að hæstv. ríkisstjórn hefði komið fram í því máli með þeim hætti að ekki væri talin ástæða til þess hjá þeim sem þennan póst skrifa, eins og hann orðaði það, sem var fréttatilkynning utanrrn., að fordæma það athæfi, heldur væri beinlínis um að ræða réttlætingu og yfirklór í sambandi við þetta brot á alþjóðalögum á þessum blöðum. ,,Ég bið menn,,, sagði hv. þm., ,,um að kynna sér þennan póst. Ég frábið mér slíkan jólapóst. Ég fyrirverð mig fyrir slíkt stjórnvald og fordæmi að slík afstaða sé tekin í nafni íslenskra stjórnvalda.``
    Þetta var einn af helstu áhrifamönnum stjórnarflokkanna í utanríkismálum að lýsa afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar í sérstakri umræðu sem efnt var til við lok fjárlagaafgreiðslu. Áður hafði hæstv. forsrh. gefið út yfirlýsingar í þessu máli. Ég leit svo á að sú fréttatilkynning sem utanrrh. sendi frá sér hefði fyrst og fremst verið send til þess að setja svolítið ofan í við hæstv. forsrh., en í fréttatilkynningu utanrrn. var sagt að íslensk stjórnvöld hörmuðu að bandarísk stjórnvöld hefðu talið sig knúin til að beita vopnavaldi í samskiptum sínum við Panama, en síðan segir: ,,Það ástand sem nú ríkir í Panama verður hins vegar að skrifast að stórum hluta til á ábyrgð Noriegas hershöfðingja.``
    Ég er í öllum meginatriðum sammála þeirri afstöðu sem fram kom í fréttatilkynningu utanrrn. en hæstv. menntmrh. sá ástæðu til þess í framhaldi
af yfirlýsingum hv. 2. þm. Austurl. að óska sérstaklega eftir því að ríkisstjórnin fjallaði um fréttatilkynningu utanrrn. Þess vegna er í þessari fsp. spurt hvenær ríkisstjórnin varð við þessari beiðni, hvenær sú umræða fór fram, hver hafi verið afstaða einstakra flokka og hvort nokkur breyting hafi orðið á afstöðu ríkisstjórnarinnar í þessu máli frá því sem fram kemur í fréttatilkynningu, þrátt fyrir upphlaup hv. 2. þm. Austurl. og athugasemdir hæstv. menntmrh.