Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Með þessari fsp. er tekið á stóru máli þó að aðeins sé vikið hér að einni stofnun sérstaklega vegna þess að þar liggur fyrir ákveðin úttekt. Ég tel að mjög brýnt sé að unnið sé að orkusparnaði hvarvetna í landinu vegna þess að það snertir tilkostnað við orkuöflun og það eru auðvitað engin rök fyrir því sem kom fram í máli síðasta hv. ræðumanns, að tímabundið sé umframframleiðsla á raforku inn í raforkukerfi landsmanna. Hversu lengi það varir fer auðvitað eftir ákvörðunum um nýtingu raforkunnar.
    Ég tek undir það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra: Á þessu máli þarf að taka við hönnun húsnæðis og setja þar viðeigandi reglur. Auðvitað kemur margháttað matsatriði þar upp. Mér finnst ekki rétt að drepa málinu á dreif með einstökum þáttum eins og t.d. snjóbræðslukerfi, umræðu um það, sem auðvitað getur átt fullan rétt á sér við þær aðstæður sem þarna ríkja.