Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Hér er hreyft mikilvægu máli. Hér er sérstaklega spurt um atriði sem varðar Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði. Það hefur komið fram það sem þarf að koma í því sambandi hér í þessari stuttu umræðu nema ekki hefur komið fram, og það vildi ég upplýsa hér, að farið var fram á sérstaka fjárveitingu á fjárlögum þessa árs til að standa undir framkvæmdum við sjúkrahúsið sem miðuðu að orkusparnaði. Ekki var orðið við þessari beiðni og er það mjög miður. Það er ákaflega gott að lýsa vilja sínum til orkusparnaðar en það er miður gott þegar ekki er sýndur skilningur á aðgerðum sem nauðsynlegar eru til þess að koma slíku fram.
    Aðeins var minnst á Orkubú Vestfjarða af hæstv. ráðherra. Ég vil taka það fram að Orkubúið sýnir mikinn skilning á þörfum Fjórðungssjúkrahússins eins og raunar kom fram í máli hæstv. ráðherra. Ég vil upplýsa það hér að einmitt á þessum degi, 1. febr., kemur til framkvæmda minnkun á rafhitunarafslætti Landsvirkjunar. Og þessi minnkun þýðir auðvitað hækkun á orkuverði eða að ég ætla um 7%. Ég vil upplýsa það hér að Orkubú Vestfjarða hefur gert samþykkt um að láta þetta ekki koma niður á orkuverði á Vestfjörðum heldur standa sjálft undir þeim kostnaði sem þarf til þess að mæta afslætti Landsvirkjunar.