Mengunvarnir á Gunnólfsvíkurfjalli
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég vildi nú upplýsa það, sem reyndar kom fram í máli hæstv. utanrrh., að mér hefur borist skýrsla frá mengunarvarnadeild Siglingamálastofnunar sem lýsir úttekt stofnunarinnar á aðstæðum á Gunnólfsvíkurfjalli fljótlega eftir að ljóst varð að þangað hafði verið flutt mikið magn olíu í heimildarleysi í nóvember sl. Þessi skýrsla er nú væntanlega komin til réttra aðila sem gagn í þeirri opinberu rannsókn sem stendur yfir á vegum saksóknara og rannsóknarlögreglu.
    Ég vil svo segja fyrir mitt leyti að í ljósi þeirra bréfaskrifta og ítrekaðra tilrauna heilbrigðisyfirvalda og heimamanna til þess að ná áheyrn varnarmálaskrifstofu eða Ratsjárstofnunar og fara fram á lagfæringar, úrbætur og aðra staðsetningu olíubirgðastöðvarinnar er sú framkoma sem þarna lýsir sér öll enn furðulegri og vítaverðari, að mínu mati, og það verður hin opinbera rannsókn þessa máls að leiða í ljós hver ber þar ábyrgð, svo furðuleg sem þessi framganga er öll í ljósi þeirrar staðreyndar að olíubirgðastöðin er byggð ofan á vatnsbóli viðkomandi byggðarlags.