Mengunvarnir á Gunnólfsvíkurfjalli
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Svar hæstv. utanrrh. leiðir í ljós, eða ég get ekki annað skilið, að Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hafi ekki fylgst með þessari byggingu eins og samið hefði verið um að hún gerði. Og þetta er auðvitað vítavert. Einnig það að varnarmáladeild ansaði ekki þeim eftirlitsaðilum sem eiga að vera í heimabyggð, þó að erindi þeirra sé margítrekað. Slíkt er alveg ólíðandi. Ég verð að beina þeim orðum mínum til hæstv. utanrrh. að hann geri ráðstafanir til þess að þarna verði ekki mengunarslys, þ.e. að þar sem hefur ekki verið farið eftir eðlilegum reglum verði að færa þennan geymi ef því verður við komið. Og auðvitað er ábyrgðin öll í raun og veru á utanrrn. eða varnarmáladeild sem verður svo að sækja sitt mál til hersins.