Mengunvarnir á Gunnólfsvíkurfjalli
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka utanrrh. svör hans. Ég var ekki viðstödd á þingfundi þegar umrædd umræða sem hann nefnir fór fram þannig að mér voru ekki ljós þau mál sem hann vitnaði í. En þá vil ég fá að vita hvernig stendur á því að ég er hér með í höndunum skýrslu frá Siglingamálastofnun um könnun á olíugeymum stöðvarinnar á Gunnólfsvíkurfjalli sem gerð er að beiðni samgrh. en ekki utanrrh. og skýrslan er samkvæmt vettvangsskoðun 22. nóv. Hæstv. utanrrh. virðist ekki telja sér skylt að fylgjast með hvernig þessum framkvæmdum er háttað hér og virðist ekki heldur telja sér skylt að sjá um að bréfum sé svarað sem koma til utanrrn. um þessi mál. Hæstv. ráðherra svarar því ekki heldur hvers vegna ekki er tekið tillit til þeirra ábendinga um mengunarvarnir sem sendar eru til utanrrn. frá þeim sem þeim málum eiga að sinna. Og það er greinilegt að eftirlitsaðilinn, sem er umrædd verkfræðistofa, hefur ekki uppfyllt skyldur sínar. Telur þá utanrrn. að framkvæmdir á vegum Bandaríkjahers sé eitthvað sem fólkið í landinu varðar ekkert um og óþarfi sé að upplýsa né heldur að taka tillit til hagsmuna þeirra sem framkvæmdin nær til? Í skýrslunni sem Siglingamálastofnun gerir kemur fram að þessi mengunarvarnaþró sé alls ófullnægjandi þrátt fyrir það að Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen telji að svo sé og ég heimta að úr því sé skorið hvað er rétt í því máli.