Afgreiðsla erlends gjaldeyris
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans greinargóðu svör sem ég dreg ekki í efa að séu rétt. Sannleikurinn er hins vegar sá að það er ekkert eftirlit með því hverju menn eyða gegnum greiðslukort erlendis. Ráðherra sagði réttilega: Almenn heimild í greiðslukortasamningum er sú að sama upphæð gildi um eyðslu erlendis með greiðslukortum og veitt er ef ferðamaður sækir um gjaldeyri í banka, en ég held að við vitum það öll sem hér inni erum að svo fremi greiðslukortareikningurinn sé í skilum gera fyrirtækin eða bankarnir enga athugasemd við þó að eyðslan fari langt umfram upp gefna heimild. Sjálf hef ég orðið vitni að því í mínum eigin viðskiptum, þegar ég hef tekið peninga beint út í erlendum banka, að það var hringt heim og spurt hvort þessi viðskiptavinur sé trausts verður, og þó ég hafi þegar verið komin fram yfir þá heimild sem ég hafði var engin athugasemd gerð við það.
    Ég held þess vegna að það sé nákvæmlega ekkert eftirlit með þessu. Gróði greiðslukortafyrirtækjanna er svo gífurlegur að þeim er alveg sama hverju menn eyða svo lengi sem þeir borga. Og það held ég að sé nú sannleikurinn í málinu. Menn skulu ekki skilja orð mín svo að ég sé að hafa á móti því að menn noti greiðslukort. Ég held að við verðum öll að sætta okkur við það að þarna er kominn nýr viðskiptamiðill inn í líf okkar sem við sjálfsagt fæst vildum nú vera án þó að margt megi um það segja hversu heillavænleg áhrif það hefur haft í þjóðfélaginu. En ef mönnum er sárt um þann gjaldeyri sem fólkið í þessu landi vinnur fyrir og safnar í okkar sameiginlegu sjóði nær auðvitað ekki nokkurri átt að menn fái að eyða þeim gjaldeyri í lúxus erlendis án þess að nokkurt minnsta eftirlit sé með því, því það er það ekki, hæstv. ráðherra. Og það hefur aldrei, svo ég viti til, verið gerð athugasemd við umframeyðslu svo fremi korteigandinn greiði skuldir sínar og jafnvel þó hann geri það ekki, því það mun nú vera orðin venjuleg athöfn þúsunda íslenskra
fjölskyldna að byrja á því, þegar launaseðillinn kemur, að uppgötva að það er ekki til fyrir greiðslukortinu hvað þá öðrum reikningum og þá er hvað auðveldast að fara í banka og semja um greiðslu á greiðslukortinu. Það er harðar gengið eftir öðrum skuldum, enda fyrirtækin rík.
    Ég held þess vegna, og nú skal ég ljúka máli mínu, hæstv. forseti, að full ástæða sé til við meðferð frv. til laga um greiðslukortastarfsemi að setja einhverjar lágmarksreglur og það standi í lagatextanum þegar þar að kemur að eitthvert eftirlit skuli vera með eyðslu manna gegnum greiðslukort. Það er löngu ljóst að þarna fara milljarðar í súginn vegna þess að ekkert eftirlit er með þessari eyðslu.