Niðurskurður vegna riðuveiki
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Elín R. Líndal):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 511 hef ég beint fsp. til landbrh. um niðurskurð vegna riðuveiki sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
,,1. Hefur riða verið staðfest á nýjum svæðum sl. þrjú ár? Ef svo er, þá hvar?
    2. Hafa áður þekkt riðusvæði stækkað með nýjum tilfellum sl. þrjú ár? Ef svo er, þá hver?
    3. a. Hjá hve mörgum bændum hefur riðuniðurskurður verið framkvæmdur og hver er heildartala fjárins? b. Hjá hve mörgum er bótasamningi lokið? c. Hversu margir hafa hafið sauðfjárbúskap að nýju?
    4. Hefur bótasamningi eða framkvæmd hans verið breytt síðan skipulegur niðurskurður hófst?
    5. Er verðgildi bótanna sambærilegt nú og við upphaf baráttunnar við riðuveiki?
    6. Ætlar landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir einhverjum breytingum á framkvæmd niðurskurðar eða bótasamninga?``
    Eins og fram kemur í fsp. er leitað svara við nokkrum spurningum varðandi niðurskurð og riðuveiki í sauðfé og full ástæða er til að fylgjast grannt með því hvernig baráttan við þennan sjúkdóm gengur og eins hinu með hvaða hætti bændum er bætt afurðatjónið.
    Á síðustu missirum hefur gætt vaxandi óánægju meðal bænda með bótasamninginn og svo virðist sem bú með góðar afurðir eftir hverja á fari verr út úr þessum bótagreiðslum en hin þar sem afurðirnar eru í meðallagi eða minni. Eðlilegast virðist að þessar bætur séu miðaðar við fullvirðisrétt viðkomandi framleiðanda. Þannig jafnast aðstöðumunur vegna mismunandi arðsemi fjárins.
    Af þessum ástæðum, m.a., leyfi ég mér að bera fram þá fsp. til hæstv. landbrh. sem ég hef hér áður upp lesið.