Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Pálsson):
    Frú forseti. Ég virði tilraunir hæstv. utanrrh. til þess að bera blak af forsrh. sínum. Hann heldur því fram að hæstv. forsrh. hafi talað um að þetta hafi verið óheppilegt. Það liggur fyrir að hæstv. forsrh. sagði að eftir að hann hafi skoðað viðtalið hafi hann komist að þeirri niðurstöððu að þar hafi sendiherrann farið út fyrir þau mörk sem hefð setur erlendum sendimönnum í ríkjum og sömuleiðis út fyrir það sem Vínarsáttmálinn, 41. gr., segir en þar er skýrt tekið fram að erlendir sendimenn skuli forðast að hafa á nokkurn hátt afskipti af innanríkismálum.
    Með öðrum orðum, það liggur hér alveg ljóst fyrir að hæstv. forsrh. lýsti því yfir að sendiherrann hafi brotið Vínarsáttmálann. Ég geri ráð fyrir því að hann hafi verið að gera það í þeim tilgangi að koma til móts við einn óþægan stjórnarþingmann og reyna að liðka fyrir stjórnarsamstarfinu hér innan lands. Eftir stendur að hæstv. utanrrh. hefur staðfest að ríkisstjórn Íslands lítur svo á að þessi ummæli hafi verið markleysa, að ríkisstjórn Bandaríkjanna og sendiherra Bandaríkjanna eigi ekki að taka mark á yfirlýsingum hæstv. forsrh. Og þá stendur eftir þessi spurning: Hvað á ríkisstjórn Bandaríkjanna eða aðrar ríkisstjórnir að halda næst þegar forsrh. Íslands talar? Það liggur hér fyrir að ekki er hægt að taka mark á ummælum hans og það er það sem er alvarlegt og þarfnast umræðu hér í þinginu og hæstv. utanrrh. getur auðvitað ekki svarað fyrir.