Skýrsla um kaup hlutabréfa í Samvinnubanka.
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég hef óskað eftir því að hæstv. forseti Ed. komi í þingsalinn, beðið um að hann verði sóttur. Ástæðan fyrir því er sú að næstliðinn þriðjudag, fyrir níu dögum, var lagt á það ofurkapp í Ed. að frv. um skattlagningu á orkufyrirtækjum yrði afgreitt til nefndar umræðulaust að kalla. ( Forseti: Forseti vill aðeins skjóta hér inn orði. Forseti telur að hæpið sé fyrir forseta Sþ. að kalla á forseta Ed. til að svara á þessum vettvangi um mál sem varða Ed. Ég vildi mælast til þess við hv. þm. að hann hafi skilning á því, enda er forseta kunnugt um að nú mun standa yfir forsetafundur. Þess vegna er hér varaforseti í stóli. En vill hv. þm. ekki beina þessu máli til hæstv. forseta Ed. á þeim vettvangi?)
    Hæstv. forseti. Ég get ekki fallist á þessa skýringu vegna þess að ég hef ekki aðstöðu til að koma athugasemdum mínum við með öðrum hætti. Á þriðjudag í síðustu viku var lagt á það ofurkapp að frv. um skattlagningu á orkufyrirtækjum yrði vísað til nefndar vegna þess að mjög lá á að lögfesta þennan skatt sem þýðir um 30% hækkun á heimilistöxtum á rafmagni fyrir alla landsmenn og verulega hækkun á heitu vatni til viðbótar. Ég óskaði þá eftir því að umræðan héldi ekki áfram fyrr en hæstv. iðnrh. yrði kominn til landsins. Að vísu gátu hvorki hæstv. fjmrh. né forseti Ed. séð að hæstv. iðnrh. ætti erindi í þá umræðu og voru mjög undrandi á því að ég lét mér ekki duga að hæstv. utanrrh. yrði viðstaddur. En vegna þess að ég vissi að hæstv. iðnrh. hafði komið að samningu frv., ekki að ég hefði fyrir því vitneskju úr ráðuneytinu heldur vegna þess að ég þekki ötulleik hæstv. iðnrh., þá óskaði ég að hann yrði viðstaddur umræðuna og gæti gefið þingdeildarmönnum upplýsingar um hvernig hann hugsaði ýmis atriði varðandi þessa skattlagningu.
    Nú hefur hæstv. forseti Sþ. óskað eftir því að rætt verði um fundarhaldið og starfshætti Alþingis kl. 1 með formönnum þingflokka. Ég hafði vænst þess að
forsetar gætu gefið skýringu á því hvers vegna ekki er boðað til fundar í Ed. nú kl. 2 til þess að hæstv. iðnrh. gefist kostur á því að útskýra hvaða rök hann hefur fyrir því að skattleggja orkufyrirtæki með þessum hætti, sem m.a. þýðir að hæpið er að sjá að hægt sé að semja við erlend stóriðjufyrirtæki um sölu á rafmagni á meðan löggjöf af þessu tagi væri í gildi.
    Ég sé, hæstv. forseti, að ástæðan fyrir því að hæstv. forseti og hæstv. fjmrh. voru svo stífir á því að gera ekki hlé á umræðunni hefur ekki verið sú að hraða málinu, koma því til nefndar, heldur hefur ástæðan verið sú að þeir hafa verið að hlífa iðnrh. við því að taka til máls um frv. eins og nú standa sakir. Við sáum það hér fyrr í dag að formaður Alþfl. lenti í miklum deilum við samgrh. um mengunarvarnir fyrir norðan. Þetta er annað dæmið.
    Ég bið varaforseta deildarinnar að skila því til varaforseta þingsins að skila því til forseta þingsins að ég skilji ekki þessi vinnubrögð, skilji ekki hvers vegna ekki er hægt að fá frv. um skattlagningu

orkufyrirtækja til umræðu í dag. Það er nauðsynlegt að yfirlýsing komi frá ráðherra og ríkisstjórninni um það að þessi skattur verði ekki lagður á til þess að greiða fyrir þeim samningaviðræðum sem nú eru uppi. Við sjálfstæðismenn höfum gert að okkar kröfu að allri frekari skattheimtu þessarar ríkisstjórnar verði hætt. Mál er að linni. Nú er verið að biðja launþega um að taka á sig --- ég vil segja áframhaldandi kjaraskerðingu. Þess vegna er nauðsynlegt að hægt sé að afgreiða mál eins og þetta frá þinginu, helst fella þau strax við 1. umr. málsins.