Skýrsla um kaup hlutabréfa í Samvinnubanka.
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma hér skýrt fram að ég fyrir mitt leyti hefði verið fús til að vera viðstaddur umræðu um frv. fjmrh. um skattskyldu orkufyrirtækja í Ed. hefði verið boðað til slíks fundar í dag. Ég vil líka láta það koma skýrt fram að hv. 2. þm. Norðurl. e. ofmetur reyndar afskipti mín af gerð þess frv. Ég lét koma fram, þegar þetta frv. birtist fyrst, að ég sæi á því ýmis tormerki að haga skattskyldu orkufyrirtækja með þeim hætti sem þar greinir. Ég ætla ekki að orðlengja um það hér í umræðu um þingsköp. Tel hins vegar nauðsynlegt að öll atriði málsins, allar hliðar þess, verði könnuð mjög vandlega í þinginu og að það gefist tækifæri til umræðna um afskipti ríkisvaldsins af orkuverði yfirleitt. Fyrirvarar mínir komu mjög skýrt fram þegar frv. var rætt og ákveðið á vegum þingflokka stjórnarinnar að það kæmi fram. Ég vil líka taka það fram að þingflokkur Alþfl. er mér sammála um afstöðu til frv.
    Hins vegar vil ég líka segja það nú að ályktanir hv. 2. þm. Norðurl. e. um meint áhrif þessa frv. tel ég fjarri öllu lagi. En reyndar er ég honum sammála um að þarna þurfi að athuga alla þætti málsins og orkar mjög tvímælis að heppilegt sé að gera orkufyrirtækin skattskyld með þeim hætti sem frv. leggur til.