Skýrsla um kaup hlutabréfa í Samvinnubanka.
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar hæstv. iðnrh. lýsir því yfir hér í Sþ. að stjfrv. sem lagt hefur verið fram í Ed. sé lagt fram í andstöðu við Alþfl. og að Alþfl. standi ekki að því stjfrv. Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir frv. í Ed. og það kom hvergi fram í hans ræðu að ríkisstjórnin stæði ekki sem heild að þessu máli. Það kom hvergi fram. Ég minnist þess heldur ekki, þegar hér fóru fram umræður um vantraust á ríkisstjórnina vegna þess að hún gæti ekki komið sér saman og hæstv. forsrh. héðan úr þessum stól eða hæstv. fjmrh., ég man ekki hvor, var að lýsa hinni nýju skattheimtu sem ríkisstjórnin hafði ákveðið hinn sama dag og stóð öll að --- þar á meðal var skattur á orkufyrirtæki --- að formaður Alþfl. hafi við þá umræðu lýst því yfir að hann stæði ekki að þeim efnahagsaðgerðum sem þá voru ákveðnar þann dag. Jón Baldvin Hannibalsson gerði það ekki, hæstv. iðnrh. Ber að skilja það svo að það sem Alþfl. sagði þennan dag við þjóðina, þegar Alþfl. var að biðja um traust, hafi verið ósatt? Ég held að málið sé ekki svona einfalt. Hæstv. iðnrh. sér nú hvaða afleiðingar þetta frv. hefur. Það hefur verið reiknað út að það muni þýða um 30% hækkun á heimilistöxtum. Hæstv. iðnrh. hefur lesið þetta sjálfur.
    Hæstv. iðnrh. sagði hér áðan að ýmsar forsendur vantaði til þess að iðnrn. gæti gert sér grein fyrir þeim stærðum sem hér væri um að ræða, verðmyndun orkufyrirtækja og annað þess háttar, sagði með öðrum orðum að ákvörðunin um þá skattheimtu sem felst í frv. væri öll í lausu lofti og hann vildi ekki standa á bak við hana. Hann hefur fundið þá miklu andúð sem þessi skattheimta vekur, ekki aðeins frá almenningi, heldur líka frá forustumönnum einstakra orkuveitna sem hafa sent hæstv. iðnrh. margvíslegar upplýsingar og gengið á fund hans. Síðan, eftir að hæstv. iðnrh. finnur alla þessa andúð, kemur hann hér upp í ræðustól á Alþingi, þegar hæstv. fjmrh. er fjarverandi, og lýsir því yfir að
stjfrv., sem hæstv. fjmrh. lagði fram í Ed. og hefur gert grein fyrir, hafi ekki verið lagt fram með fulltingi Alþfl. Alþfl. hafi um leið og frv. var samþykkt af ríkisstjórninni lýst yfir að þingflokkur og einstakir ráðherrar Alþfl. stæðu ekki að frv.
    Ég held, herra forseti, að óhjákvæmilegt sé að kalla hæstv. fjmrh. til þessarar umræðu til þess að honum berist vitneskja um yfirlýsingar hæstv. iðnrh. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að við fáum að heyra hvað hæstv. fjmrh. hefur um þetta mál að segja.
    Ég óska eftir því að hlé verði gert á þessum fundi og honum verði síðan haldið áfram. ( Forseti: Telur hv. þm. ekki að þá sé nú komið dálítið út í efnislega umræðu um ákveðið þingmál ef farið verður að ræða það undir þingsköpum á þeim grunni? ) Ég skal svara því. Ég tel, hæstv. forseti, að það sé mjög alvarlegt mál ef lagt er fram á Alþingi stjfrv. sem í ljós kemur að er ekki stjfrv. Ég held að það sé hreint brot á þingvenjum, og ef svo er að hæstv. fjmrh. stendur persónulega að þessu frv. eða aðrir ráðherrar en

ráðherrar Alþfl. væri auðvitað eðlilegt að það væri borið fram sem þmfrv. eins og fordæmi eru fyrir, t.d. um frv. Ólafs Jóhannessonar forsrh., vorið 1974, frv. um efnahagsráðstafanir eða aðgerðir í efnahagsmálum eða eitthvað þvílíkt.
    En þetta liggur sem sagt fyrir. Hæstv. iðnrh. hefur lýst því yfir að Alþfl. hafi skýrt frá því í ríkisstjórn að hann væri andvígur efnisatriðum þess frv. um skattlagningu á orkufyrirtæki sem lagt var fram í Ed. Iðnrh. hefur jafnframt lýst því yfir að þær upplýsingar sem borist hafa frá forsvarsmönnum orkufyrirtækja séu fjarri öllum sanni. Í þriðja lagi hefur hæstv. iðnrh. lýst því yfir að það sé ekki að hans beiðni --- kannski þá að beiðni hæstv. fjmrh. --- sem þetta frv. er ekki til umræðu í Ed. í dag. Allt er þetta mál dularfullt og undarlegt, lýsir skrýtnum vinnubrögðum og litlum heilindum milli einstakra ráðherra.