Skýrsla um kaup hlutabréfa í Samvinnubanka.
Fimmtudaginn 01. febrúar 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég mun að sjálfsögðu eins og áður eingöngu ræða hér um þingsköp.
    Í fyrsta lagi vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leiðrétta þá skekkju sem kom fram í málflutningi hans hér fyrr við þessa umræðu. Það var rangt að frv. um Sementsverksmiðju ríkisins hefði verið lagt fram í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Hins vegar fékkst samþykkt allra þáv. stjórnarflokka fyrir því að leggja fram frv. um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg og það var full samstaða um það mál. Það mál varð síðar að lögum.
    Hins vegar, fyrst minnst er á Sementsverksmiðjuna, er nokkuð athyglisvert að í skrá sem hæstv. iðnrh. hefur birt og birtist með stefnuræðu hæstv. forsrh. kemur fram að það sé ætlun hæstv. ríkisstjórnar að leggja fram frv. á þessu þingi um Sementsverksmiðju ríkisins. Það hefur ekki verið gert, en ég álít að hæstv. ráðherra styðji það frv. sem lagt hefur verið fram um málið með þeim hugmyndum sem hann hefur rætt hér úr þessum stól til breytinga á því frv.
    Aðalatriði þess sem hér hefur komið fram í dag er það að hæstv. iðnrh. hefur sagt það hér að Alþfl. og hæstv. iðnrh. styðji ekki fyrirliggjandi frv., hvort sem það er stjfrv. eða frv. fjmrh., í óbreyttu formi. Það er þess vegna, virðulegur forseti, sem það er óverjandi og var óverjandi á sínum tíma að hæstv. forseti Ed. og sérstaklega þó hæstv. fjmrh. ætluðu sér að pína fram umræður í deildinni án þess að fulltrúi Alþfl., hæstv. iðnrh., sem auðvitað fer með orkumálin, fengi að vera viðstaddur þá umræðu. Það hlaut því að koma að því nú í dag, þegar þannig stendur á fundartíma þingsins að halda á fund í Sþ. fyrri part dagsins en síðan fund í Nd. síðari hluta dagsins, sem er nokkuð óvenjulegt, að hv. 2. þm. Norðurl. e. færi fram á að haldinn yrði fundur í Ed. á sama tíma til þess að kalla fram þessar skoðanir og fá efnislega umræðu um málið. Það hlýtur að vera skiljanlegt. En þá bregður svo við, virðulegur forseti, að hæstv. forseti Ed. kemur ekki hér í þingsal af þeirri ástæðu að virðulegir forsetar þingsins hafa af smekkvísi sinni og virðingu fyrir Alþingi haldið fund nú um stund á meðan fundað er í sameinuðu Alþingi. Þetta þarf auðvitað að koma skýrt fram, en að allra síðustu vil ég þó þakka hæstv. iðnrh. fyrir að hafa komið hér upp, tekið til máls í þessari umræðu, lýst skoðun sinni á þessu máli, því að það er nauðsynlegt að það berist til þjóðarinnar að innan hæstv. ríkisstjórnar er ágreiningur um þetta mál og þess vegna eðlilegt að fara fram á að það verði rætt strax til þess að framkalla þennan ágreining, ella verði viðkomandi mál kallað aftur og annaðhvort ekki flutt eða flutt í því formi sem hæstv. ríkisstjórn kemur sér saman um. Um þetta hafa þessar þingskapaumræður snúist og ég held að fullt tilefni hafi verið til þess að stofna til þeirra.